Þorsteinn Tómasson, plöntuerfðafræðingur og ritari Skógræktarfélags Reykjavíkur, var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag.
Heiðursmerkið hlaut Þorsteinn fyrir framlag til plöntukynbóta í þágu landbúnaðar, skógræktar, garðyrkju og líftækniiðnaðar.
Kynbótastarf Þorsteins hefur skipt sköpum við að efla skógrækt og fegra umhverfi okkar í þéttbýlinu.
Þorsteinn er höfundur Emblu — birkiyrkis með ljósan börk, sem vex hratt, er beinvaxið og nær töluverðri hæð. Hann hefur einnig ræktað yrkin Heklu og Dumbu, sem báðar eru rauðblaða. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur styrkt kynbótastarfið og notið góðs af því.
Emblubirkið setur æ meiri svip á garða og almenningsrými í þéttbýli og hefur verið mikið notað í skógræktarstarfi. Til að mynda er mikið um Emblu í Esjuhlíðum. Yrkin Dumbu og Heklu, sem bæði eru með rauð blöð, má meðal annars sjá í Heiðmörk. Á Heiðmerkurvegi, um eftir að ekið er yfir Helluvatn, er minnisvarði um Agna Kofoed, fyrsta skógræktarstjóra Íslands, og þar voru margar birkiplöntur gróðursettar fyrir skemmstu.
Þorsteinn hefur einnig unnið að framförum í landgræðslustarfi með rannsóknum á melgresi og beringspunti, og rannsakað rifs, sólber og elri.
Vegna þess hve víða kynbætt birki hefur fegrað umhverfið, má segja að allur almenningur njóti góðs af starfi Þorsteins, þótt ekki geri sér allir grein fyrir því.
Við óskum okkar öfluga liðsmanni og ritara félagsins til hamingju með verðskuldaða upphefð!
Hér má nálgast umfjöllun sem Þorsteinn vann um birki fyrir tveimur árum, þegar birki var Trjátegund mánaðarins á heidmork.is.
Hér er nýleg umfjöllun í Landanum á RÚV um kynbótastarf Þorsteins.