Trjátegund mánaðarins

Birki (Betula ssp)

Birki er eina trjátegundin sem myndar samfellt skóglendi á Íslandi. Talið er að birki hafi þakið um þriðjung af yfirborði landsins við landnám. Nú er þetta hlutfall rétt undir tveimur hundraðshlutum. Íslenska birkið hefur lengi verið lágvaxið og kræklótt, enda ræktað niður með rányrkju kolagerðar og búfjárbeitar. Með markvissri ræktun hefur eru að verða til mörg ný yrki, sem eru hraðvaxta og bein og geta náð talsverðri hæð.

 

Birkið ræktað niður með skógarhöggi og beit

Á Íslandi teljast tvær tegundir birkiættkvíslarinnar innlendar, birki oftast nefnt ilmbjörk (Betula pubescence) og fjalldrapi (Betula nana). Breytileikinn í birkinu er mikill sem helgast einkum af því að iðulega verður til blendingur við það að birkifrjó frjóvgar fjalldrapa og til verður runni sem nefndist skógviðarbróðir þar sem menn töldu í upphafi að hér væri um sjálfstæða tegund að ræða. Þessir runnar eru frjóir þrátt fyrir að litningafjöldi í frumum foreldrategundanna er mismunandi og geta æxlast við bæði birki og fjalldrapa. Skógviðarbróðurinn verður því farvegur fyrir erfðasamskipti þessara tegunda, svonefnt erfðaflæði. Erfðaflæðið veldur því að breytileiki í birkinu er mikill og lýsir sér í miklum mun á staðbundnum erfðahópum svonefndum staðbrigðum víða um land. Mikil felling íslensku birkiskóganna samhliða mikilli beit hefur valdið því að skóglendi landsins þróaðist víðast í átt að kjarrlendi.

Dæmigert lágvaxið birkikjarr, blandað erfðaefni fjalldrapa.. Slíkt kjarr hefur víða orðið ráðandi enda þolir birki sem er erfðablandað fjalldrapa, beit betur. Myndina tók Þorsteinn Tómasson í Biskupstungum.

Ungt, beinvaxið birkitré, ásamt gömlu, lágreistu, kjarri, þar sem birki og fjalldrapi hafa erfðablandast. Mynd: Þorsteinn Tómasson.

Bæjarstaðarbirki

Staðbrigðin falla misvel að markmiðum trjáræktar og hefur birki úr Bæjarstaðaskógi reynst vinsælasta staðbrigðið til ræktunar bæði í garðrækt og almennri skógrækt. Tré af þessum uppruna bera almennt af þegar sóst er eftir hraðvaxta trjám með gott vaxtarlag og ljósan barkarlit. Þegar fræi af Bæjarstaðarbirki er safnað t.d. í Reykjavík nefnist afkomendahópurinn Reykjavíkurkvæmi þar sem tegundin er vindfrjóvga og því getur faðerni frjósins verið t.d. kjarr á Reykjanesi. Orðið kvæmi vísar því til ræktunarstaðar fræsins, en orðið staðbrigði til upprunastaðar þess.

Hávaxið en kræklótt birki blandað fjalldrapa. Mynd: Þorsteinn Tómasson.

Yrkið Hekla, tveimur árum eftir gróðursetningu.

Þorsteinn Tómasson með fjögur ung birkitré – afkvæmi hengibirkis og Heklu. Trén uxu um 170 sentimetra á hálfu áru frá sáningu.

Birkilauf í ýmsum litum. Mynd: Þorsteinn Tómasson.

Ný yrki – hraðvaxta, bein með hvítan stofn og stundum rauð blöð

Næsta skref í ræktunarsögu birkisins á Íslandi eru svo erfðarannsóknir og kynbætur. Bestu tré úr ræktun eru þá valin til undaneldis og afkvæmaprófuð með misflóknum aðferðum. Þannig eru búnir til erfðahópar, svo nefnd yrki. Fyrsta íslenska yrkið sem ræktað hefur verið með aðferðum kynbótafræðinnar er yrkið Embla sem hefur reynst jafnbest alls erfðaefnis sem reynt hefur verið með samanburðartilraunum. Yrkið hefur verið notað mikið jafnt í þéttbýli og almennri skógrækt um allt land. Í framhaldi af þeirri ræktun hafa verið gerðar tilraunir með erlent birki sem almennt hefur reynst illa. Í ljós hefur komið að norskt birki sem reynst hefur illa til ræktunar í Íslandi hefur nýst vel í víxlanir við Emblu sem leiddi til yrkisins Kofoed sem var svo nefnt til heiðurs fyrsta skógræktarstjóranum. Þessi góði árangur leiddi til frekari tilrauna með víxlanir með notkun finnsks yrkis með rauðum sumarlit sem leiddi til yrkisins Dumba sem er algengt nafn á dumbrauðum kúm. Þessi árangur hefur varð til þess að hafist var handa með víxlanir þar sem notast var við tvær nýjar tegundir sem erfiðlega hefur gengið að rækta hérlendis, svonefnt hengibirki (Betula pendula) og nepalbirki (Betula utilis jaquemonti) frá Asíu. Hekla, rauðblaða, hvítstofna og hraðvaxta yrki með uppruna í fjórum birkitegundum frá þremur löndum, er nú komið í prófun víða um land. Hekla er jafnframt í fjölgun og sölu í Finnlandi með svonefndri vefjaræktun og verður næsta yrkið að komast í almenna ræktun. Með vefjaræktun fæst sá árangur að öll trén eru af sömu arfgerð.

Ljóst er að miklir möguleikar felast í ræktun birkis til margbreytilegra nota á Íslandi.

 

Þorsteinn Tómasson

 

 

 

Ítarlega var fjallað um kynbætur birkis greininni „Kynbætur birkis“ sem birtist í Skógræktarritinu 2019. Greinin er aðgengileg hér.

Rætt var við Þorstein um kynbætur á birki í Bændablaðinu síðastliðið haust. Viðtalið var birt í Bændablaðinu 23. september 2021, á blaðsíðu 34-35. Hægt er að lesa það hér.

1 thoughts on “Birki (Betula ssp)

Comments are closed.