Leiðin upp að Steini í Esjunni verður lagfærð í sumar. Brúin yfir Mógilsá við Fossalautir verður löguð. Hún er orðin 30 ára gömul og mjög illa farin. Gert var við brúna til bráðabirgða síðasta haust eftir að hún hafði farið illa í miklu úrhelli í byrjun október. Þá verða gerða endurbætur á rúmlega kílómetra langri gönguleið frá brúnni og að vaðinu fyrir neðan Grensöxl.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutaði í vor styrk til þessa verks til Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Gönguleiðin að Steini er líklega ein fjölfarnasta gönguleið landsins. Á síðasta ári fóru ríflega 114 þúsund manns á Esjuna, samkvæmt teljara Ferðamálastofu við bílastæðið neðan Þverfellshorns.
Efst í Esjunni eru klettar og eðlilegt að grjót losni, sérstaklega í frosti, vorleysingum og umhleypingum. Í vor losnaði talsvert af grjóti efst í Esjunni. Lausasta grjótið var tryggt og fyrir hádegi í dag, mánudaginn 3. júní, er fjallið lokað meðan lausir steinar eru teknir niður.
Við minnum fólk á að fara að öllu með gát og nota merktar gönguleiðir.
Á myndinni efst er bíll frá björgunarsveitinni Kili, sem aðstoðaði við að loka fjallinu og fjarlægja laust grjót, mánudaginn 3. júní.