Esjufréttir, Fréttir

114.295 á Esjuna árið 2023

Útivistarsvæði í umsjón Skógræktarfélags Reykjavíkur eru mikið notuð allt árið um kring. Þetta sýna tölur úr teljurum við Esjuhllíðar, Vífilsstaðavatn og Búrfellsgjá.

Á Esjuna fóru ríflega 114 þúsund manns, árið 2023, samkvæmt teljara Ferðamálastofu við bílastæðið neðan Þverfellshorns. Flest fóru á Esjuna 5. júlí: 3.927 manns.

Mikil umferð er einnig um önnur útivistarsvæði félagsins. Og fólk stundar útivist alla mánuði ársins.

Garðabæjarmegin Heiðmerkur eru teljarar við Vífilsstaðavatn og Búrfellsgjá. Á fyrrnefnda staðnum fóru um 107 þúsund framhjá teljara á árinu. Starfsmenn félagsins hafa tekið eftir aukinni umferð fólks á svæðinu, líklega vegna aukinnar byggðar í nágrenninu, svo sem í Urriðaholti. Flest var fólkið föstudaginn 17. mars. Þann dag taldi teljarinn við Vífilsstaðavatn 606 vegfarendur. Við stutta leit á netinu fannst enginn sérstakur viðburður sem gæti skýrt hvers vegna svona margt fólk var á ferli þennan dag. Kannski var einfaldlega gott veður þennan daginn, farið að birta aftur eftir verstu vetrarmyrkrin, og margt fólk sem langaði að fara í gönguferð í náttúrunni.

Búrfellsgjá liggur síðan nokkuð inni í friðlandinu. Teljarinn þar taldi ríflega 30 þúsund vegfarendur á árinu 2023. Í raun voru þeir eitthvað fleiri, þar sem mælirinn bilaði um nokkurn tíma. Að meðaltali eru það því hátt í 100 manns sem ganga í Búrfellsgjá, á hverjum degi, allt árið. Að vetrarlagi er vegurinn að Búrfellsgjá oft lokaður við Maríuhella. Fólk sem teljarinn skráir, hefur því gengið talsverða leið. Samt er greinilegt að fólk gengur á svæðinu allan ársins hring.