Við síðustu aldamót stóð Skógræktarfélag Reykjavíkur á ákveðnum tímamótum. Rekstri gróðrarstöðvarinnar í Fossvogi, sem hafði verið lykilhluti af starfi félagsins áratugum saman, hafði verið hætt og lóðin seld Reykjavíkurborg. Aðkoma félagsins að skógræktarstarfi í borgalandinu fór líka minnkandi. Félagið hafði áratugum saman haft umsjón með sumarstarfi ungmenna við gróðursetningar og umhirðu í Öskjuhlíð, í Elliðaárdal og á Hólmsheiði.
Ákveðið var að félagið myndi leggja aukna áherslu á að byggja upp innviði fyrir útivist í Heiðmörk. Og árið 2000 tók félagið að sér útivistarsvæðin í Esjuhlíðum. Á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru síðan, hefur félagið unnið markvisst að því að stækka skipulögðu útivistarsvæðin til að dreifa álagi og mæta þörfum ólíkra hópa. Nýir göngustígar hafa verið lagðir sem og hjólastígar og stígar fyrir blandaða umferð. Vegir hafa verið bættir og nýtt bílastæði útbúið við Kollafjarðará, þar sem ungur skógur er að vaxa upp.
Skógrækt ríkisins og fleiri höfðu um árabil ræktað skóg á jörðunum Mógilsá og Kollafirði. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haldið því starfi áfram með þátttöku landnemahópa. Stærstur hluti gamla skógarins við rætur Esjunnar tilheyrir Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá. Rannsóknarhúsið var reist 1967 og skógrækt því verið stunduð þar í rúmlega hálfa öld. Við húsið er trjásafn með tegundum víða að úr heiminum. Í skóginum eru meðal annars linditré, broddhlynur og risalerki. Algengustu tegundirnar eru þó birki úr Bæjarstaðaskógi, bergfura úr Pýreneafjöllum og sitkagreni og stafafura frá Alaska.
Á útivistarsvæðinu í Esjuhlíðum er auk þess fjöldi plantna sem hægt er að leggja sér til munn. Má þar nefna berjalyng, hrútaber og skógarkerfil en auk þess eru hindberjaplöntur farnar að dreifa sér um svæðið og þroska ber í lok sumars. Þá vaxa villijarðarber undir kerfli og lúpínu. Í Esjuhíðum er líka mikið fuglalíf. Fýll og hrafn verpa í hamrabeltum Esjunnar. Á hásléttunni verpir sendlingur og neðar í melum og móum verpa heiðlóa, tjaldur, sandlóa og stelkur. Og í skóginum og nágrenni hans verpa til dæmis þúfutittlingur, steindepill, maríuerla og skógarþröstur og nokkrar tegundir vaðfugla.
Útivistarsvæðin í Esjuhlíðum eru fjölsótt. Þar eru skipulögð víðavangshlaup og fjallahjólakeppnir auk þess sem hundruð manna ganga að jafnaði á Esjuna á hverjum degi. Samkvæmt teljara við leiðina frá bílastæðinu að Steini og Þverfellshorni, fóru að meðtaltali 350 á Esjuna á dag, frá 1. janúar til 12. ágúst 2021. Alls héldu um 70 þúsund manns á Esjuna frá bílastæðinu fyrstu sjö mánuði ársins.
Starf Skógræktarfélags Reykjavíkur í Esjuhlíðum er góð áminning um að skógrækt snýst ekki bara um tré, heldur líka mannlíf, dýralíf, útivist og menningu.