Fréttir

Birkifræsöfnun í Heiðmörk 27. september

Þriðjudaginn 27. september kl. 17.30 – 19.00 efnir Skógræktarfélag Reykjavíkur til söfnunar birkifræja í Heiðmörk. Viðburðurinn hentar allri fjölskyldunni, ekki síst börnum sem gjarnan eru mjög áhugasöm um fræsöfnun. Í upphafi er stutt fræðsluerindi um fræsöfnun og sáningu í Smiðjunni viðarvinnslu félagsins – sjá staðsetningu hér. Að erindinu loknu er haldið út í skóg að tína fræ. Allir geta lagt sitt að mörkum og tekið þátt í verkefninu enda er fræðsöfnun kjörin leið til heilnæmrar og hressandi útivistar. Gestir geta skilað af sér fræjunum til skógræktarfélagsins að söfnun lokinni eða haldið áfram að tína síðar og skilað fræsöfnunarkössum í verslunum Bónus eða á bensínstöðvum Olís. Viðburðurinn hentar líka þeim sem vinna með börnum, svo sem leik- og grunnskólakennurum sem vilja fræðast og í framhalidnu taka þátt í söfnun birkifræja með nemendum sínum.

Myndband um söfnun birkifræja má nálgast hér.

Með söfnun birkifræja gefst almenningi kostur á að taka virkan þátt í aðgerðum til að auka og bæta gróður og styrkja vistkerfi landsins í þeim tilgangi að endurheimta glötuð landgæði, skapa vistlegra umhverfi og draga úr loftlagsbreytingum. Landsátak í söfnun og sáningu birkifræs hófst haustið 2020 en þá tóku Skógræktin og Landgræðslan höndum saman og óskuðu eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins. Farið var í átak til að safna birkifræi sem var dreift á völdum, beitarfriðuðum svæðum í öllum  landshlutum. Átakið er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Á rýru landi er gjarnan kolefnislosun því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Ef landið klæðist t.d birkiskógi stöðvast þessi losun og binding hefst í staðinn. Svona verkefni eru því líka loftslagsverkefni. Hugmyndafræði birkiverkefnisins byggist á þátttökunálgun. Þátttakendur eignast hlut í mikilvægu umhverfisverkefni og þannig næst bæði umhverfislegur og félagslegur árangur sem er afar þýðingarmikill.

Nánari upplýsingar um Landsöfnun birkifræja 2022 má nálgast á heimasíðu verkefnisins www.birkiskogur.is

Birkifrætínsla er ánægjuleg útivera sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í.

Nú stendur yfir landsátak í söfnun birkifræja. Fræjum má skila í öllum Bónusverslunum og hjá Olís.