Fréttir

Aðalfundur og erindi um framlag skóga til velsældar

Áhugaverðar umræður urðu um virði Heiðmerkur, framtíðarskóga á Íslandi og framlag skóga til velsældar, eftir aðalfund félagsins á þriðjudag.

Aðalfundurinn hófst á hefðbundnum aðalfundarstörfum undir fundarstjórn Áslaugar Helgadóttur. Jóhannes Benediktsson, formaður félagsins, kynnti skýrslu stjórnar. Þorsteinn Tómasson var fundarritari. Björt Ólafsdóttir og Valgerður Hrund Skúladóttir endurnýjuðu umboð sitt í stjórn félagsins. Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir var kjörin í varastjórn í stað Hjördísar Jónsdóttur, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Hjördísi var þakkað fyrir störf sín í þágu félagsins.

Ársskýrsla Skógræktarfélags Reykjavíkur 2023 er aðgengileg hér.

Að loknum aðalfundinum, flutti Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, erindi undir yfirskriftinni „Framlag skóga til velsældar“. Erindið er aðgengilegt á Youtube-síðu félagsins og hér að neðan.

Daði fjallaði meðal annars um mismunandi framlag skóga — allt frá timburframleiðslu og kolefnisbindingu til vistkerfisþjónustu og útivistar. Hann benti á að í landi eins og Íslandi, þar sem lítið er um skóga, væri útivistargildi skóglendis líklega mun meira en í löndum þar sem skógar þekja stærri hluta landsins. Þá fjallaði Daði einnig um hvernig meta mætti jafn óáþreifanleg verðmæti og útivistargildi skóga. Og um hvernig skóga við viljum hafa í framtíðinni. Það stýrist meðal annars af því hvernig staðið er að grisjun þeirra mörgu skóga sem nú er kominn tími til að grisja. Áhugaverðar umræður urðu í lok erindisins.