Jólamarkaðurinn í Heiðmörk og Jólaskógurinn á Hólmsheiði opna núna um helgina 2.–3. desember. Jólamarkaðurinn verður opinn báða dagana, kl. 12–17; og Jólaskógurinn frá 11–16.
Sú skemmtilega hefð hefur skapast við opnun Jólamarkaðsins, að sönghópur úr Norðlingaskóla syngi jólalög. Þann dag er Jólamarkaðstréð einnig opinberað en í ár er það skreytt af listamanninum Lilý Erlu Adamsdóttur.
Á Jólamarkaðnum við Elliðavatnsbæinn verður handverksmarkaður, jólatrjáasala, upplestur rithöfunda í Rjóðrinu og jólastemmning. Á handverksmarkaðnum geta gestir keypt margskonar vandaðar handverksvörur. Félagið verður einnig með sölu á jólatrjám, tröpputrjám og greinabúntum sem til dæmis henta til skreytinga, í kransa eða á leiði. Á torginu við bæinn verður jólastemmning: Jólamarkaðstréð á torginu miðju, eldsmiður að störfum við snarkandi eld og tónlist af og til. Þá verður hægt að kaupa nýristaðar möndlur, kaffi, kakó, mandarínur, kleinur og smákökur frá Brikk.
Í kjallara Elliðavatnsbæjarins verður sérstakur jólasalur. Þar geta gestir sest inn og yljað sér við arineld. Salurinn er skreyttur af 10-12 ára nemendum Hjallastefnunnar. Í Rjóðrinu, skammt frá Elliðavatnsbænum, verður hægt að hlýða á rithöfunda lesa úr nýútkomnum bókum, við varðeld, klukkan 14 hvern opnunardag. Núna á laugardaginn lesa þær Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir úr bókinni Úlfur og Ylfa. Á sunnudaginn les Embla Bachman, höfundur bókarinnar Stelpur stranglega bannaðar!
Í Jólaskóginum á Hólmsheiði getur fólk svo sótt sitt eigið tré út í skóg. Skógurinn er á sama stað og í fyrra. Varðeldur er á staðnum, jólasveinar kíkja í heimsókn, og hægt að kaupa kaffi og kruðerí.
Upplýsingar um jólaviðburði Skógræktarfélags Reykjavíkur eru hér.