Um 4.000 rótarskot voru gróðursett í Heiðmörk nýlega. Trjáplönturnar voru gróðursettar í nágrenni Hnífhóls, við svæðið þar sem gróðureldar ollu talsverðum skemmdum í vor.
Björgunarsveitafólk og sjálfboðaliðar frá Skógræktarfélagi Íslands og Skógræktarfélagi Reykjavíkur sáu um gróðursetninguna. Notast var við snjóbíla til að flytja plöntur og mannskap að gróðursetningarsvæðinu. Uppgræðslan kallaðist þannig fallega á við slökkvistarfið í vor, þegar björgunarsveitir voru kallaðar út til að aðstoða slökkvilið við að ná tökum á gróðureldunum. Þá var einnig notast við snjóbíla til að flytja þungan búnað og þreyttan mannskap sem barðist við gróðureldana.