Fréttir

Skemmdir eftir gróðureld teknar út

Gras, fíflar og lúpína eru byrjuð að skjóta upp kollinum við Hnífhól í Heiðmörk, þar sem mikill gróðureldur geisaði þriðjudaginn 4. maí.

 

Sérfræðingar frá Skógræktinni mátu ástandið á svæðinu í dag. Þeirra á meðal voru þrír sérfræðingar í rannsóknarstarfi við rannsóknarsviði Skógræktarinnar á Mógilsá. Til stendur að leggja út mælifleti til að meta áhrif brunans og fylgjast svo með framvindunni. Fylgst verður með trjágróðri, almennu gróðurfari og skordýralífi. Þá eru uppi hugmyndir um að meta hugsanlegar breytingar á jarðvegsöndun – hvort gróðureldurinn hafi drepið örverur í jarðveginum og þannig haft áhrif á rotnun.

 

Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur hjá Skógræktinni á Mógilsá segir verkefnið mikilvægt.

„Það er gríðarlega áhugavert og mikilvægt upp á framtíðina að við höfum einhvers konar mat á áhrifum gróðurelds á skóg á þessum aldri, því þetta er mjög ungur skógur.“

Þá kemur til greina að BS-nemendur í skógfræði við Landbúnaðarháskólann vinni rannsóknarverkefni um gróðureldinn. Bjarki vildi líka þakka Skógræktarfélagi Reykjavíkur fyrir að taka á móti starfsmönnum Skógræktarinnar og veita innsýn í svæðið og brunann.

 

Gróður er að koma upp víðast hvar á svæðinu sem gróðureldurinn fór yfir, 4. maí. Alls fór eldurinn yfir um 61 hektara lands. Þar af var ræktaður skógur á 46 hekturum og náttúrulegt birki á 5,5 hekturum. Líkt og sjá má að meðfylgjandi myndum, sem Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur tók í dag, er nokkuð af lúpínu að koma upp úr sviðnum sverðinum. Og jarðvegurinn er frjósamur þrátt fyrir brunann.

Starfsfólk Skógræktarinnar skoðar áhrif gróðureldsins við Hnífhól í Heiðmörk. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Ummerki eftir gróðureldinn í Heiðmörk, þremur vikum eftir að hann geisaði. Sum trén lifðu eldinn af. Þá er lúpína byrjuð að vaxa upp úr brunnum sverðinum. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Ummerki eftir gróðureldinn í Heiðmörk, þremur vikum eftir að hann geisaði. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Trén á svæðinu eru mörg tekin að laufgast. Hins vegar er ekki víst að öll tré sem laufgast, nái að lifa til næsta sumar. Þótt tré taki vatn í gegnum ræturnar til að laufgast, getur verið að börkurinn og vaxtarlag trésins sem er þar undir, hafi skaðast illa. Ef svo er, getur verið erfitt fyrir trén að flytja sykrur út laufum og aftur niður í ræturnar.

 

Minna fer fyrir ösku og ryki nú en strax eftir brunann. Auður segir að skúrir síðustu daga, þótt litlar hafi verið, hafi hjálpað til við að binda smágerðustu öskuna. Eitthvað ryk þyrlast enn upp á svæðinu þegar gengið er um, en miklu minna en var.

 

Á næstunni verður ákveðið hvaða tilraunir verða gerðar á svæðinu. Til greina kemur að gróðursetja á hluta þess í sumar. En vel getur verið að beðið verði með það, til að hægt verði að rannsaka sjálfkrafa gróðurframvindu eftir gróðureld. Hitinn af gróðureldinum varð til þess að margir könglar opnuðust og ef til vill verður óvenjulega mikið af nýgræðingi á svæðinu innan skamms. Náttúrufræðistofnun Íslands gerði úttekt áhrifnum brunans á gróður, smádýralíf, fugla og spendýr fyrr í mánuðinum.

 

Enn mikil eldhætta

Hættustig vegna gróðurelda er enn í gildi á Höfuðborgarsvæðinu, eins og segir á vef Almannavarna.

„Þrátt fyrir nokkra úrkomu um helgina sem var kaflaskipt var hún því miður ekki allstaðar og er til dæmis ennþá mikill þurrkur í Heiðmörk. Spáð er áframhaldandi þurrki næstu daga ásamt talsverðum vindi eða allt að 15 m/sek. aðfararnótt fimmtudags.“

 

Enn er því mikil hætta á gróðureldum í Heiðmörk – jarðvegur þurr og talsverður vindur. Samkvæmt Veðurstofu Íslands er þó útlit fyrir sunnanátt í lok vikunnar, með rigningu sunnan- og vestanlands.

 

Fólk er því eindregið hvatt til að kveikja ekki eld nokkurs staðar í Heiðmörk, hvorki til að grilla eða reykja. Almennt þarf líka að fara mjög varlega með allt sem getur mögulega valdið eldi. Almannavarnir hvetja fólk til dæmis sumarhúsaeigendur á hættusvæðum til að nota ekki verkfæri sem hitna mikið eða geta sent frá sér neista.