Trjátegund mánaðarins

Sólber (Ribes nigrum) og ribs (Ribes rubrum)

Trjátegundir ágústmánaðar eru ribs (Ribes rubrum) og sólber (Ribes nigrum) sem eru vissulega trjákenndar tegundir en flokkast varla sem tré. Ástæður þess að fjalla hér um þessa vinsælu berjarunna eru tvær. Annars vegar að greina frá samanburðartilraun á sólberjayrkjum sem höfundur hefur staðið fyrir á liðnum árum og hins vegar að viðra þá hugmynd að koma upp ræktun þessara tegunda í lúpínubreiðum í Heiðmörk til frjálsra afnota borgarbúa.

 

Eiginleikar einstakra yrkja af sólberjum eru mjög mismunandi og breytileiki þeirra á milli mikill. Af þeim sökum er skaði að nefna einungis tegundarheitið eins og víða tíðkaðist á ræktunarstöðvum á sjöunda áratugnum. Það var því eftir miklu að slægjast þegar hafnar voru yrkjaprófanir á Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA). Umsjón með þeim hafði Óli Valur Hansson sem lengst af starfaði sem garðyrkjuráðunautur Búnaðarfélags Íslands. Auk samanburðarræktunar að Korpu í útjaðri Reykjavíkur var samsvarandi tilraun lögð út á tilraunastöð RALA á Möðruvöllum í Hörgárdal. Þessar tilraunir sýndu mikinn mun á yrkjum hvað varðar uppskeru og ýmsa aðra eiginleika yrkjanna.

 

Smám saman tóku fleiri yrki að berast til landsins og komast í ræktun. Nýju yrkin voru þó ekki borin saman við eldri yrki og sum voru ekki endilega betri en þau sem fyrir voru en báru þó af hvað varðar ýmsa eiginleika. Þegar höfundur eignaðist garð við heimili sitt í Breiðholti í Reykjavík tók hann að safna að sér yrkjum og átti er yfir lauk liðlega 30 yrki sem reyndust mjög mismunandi að gæðum hvað varðar heilmarga eiginleika. Af þessum yrkjum var þeim 15 áhugaverðustu stungið í fjölgatapotta og afhentir einum 12 ræktendum til prófunar víða um land. Illa hefur reynst að safna upplýsingum um gæði yrkjanna hvað varðar margvíslega eiginleika og því ákvað höfundur að nefna í þessari grein sex yrki í þeirri röð sem hann vill sjálfur rækta ásamt rökum fyrir því vali. Hugsanlega henta önnur yrki betur annars staðar á landinu.

 

Þann 14. ágúst s.l. safnaði höfundur sýnishornum af uppskeru sex yrkja og fylgir hér tafla með stuttri umsögn um hvert þeirra auk myndar þar sem mikill munur á þroskatíma og stærð er augljós.

Yrki Upprunaland Kostir, auk mikillar uppskeru Ókostir
Big Ben Skotland Stór ber, sterk húð Lágvaxið og skriðult
Storklas Svíþjóð Berjahúð sterk
Melalathi Svíþjóð Mjög bragðgott Misþroska, húð berja viðkvæm
Sönderby Svíþjóð Fljótþroska Viðkvæmt fyrir vorfrosti, skriðult
Kristin Noregur Mjög mikil uppskera Ber misstór
Narve Viking Noregur Upprétt vaxtarlag, þrastarvörn Uppskera í minna lagi

Með miklum mun á yrkjum hvað varðar upphaf vaxtar, blómgunartíma og þroska þessara yrkja fæst aukið öryggi á að eitthvert þeirra gefi mikla uppskeru þrátt fyrir mun á vorkomu og ágangi þrasta. Öll henta þau vel til sultugerðar. Sólber og ribs krefjast mikils niturs til að skila góðum vexti og uppskeru. Tilraunir sýna að þær þrífast vel í lúpínubreiðum þar sem lúpínan leggur þeim til áburðarefnin, einkum nitur eins og sést á meðfylgjandi myndum.

Sólberjarunni í lúpínubreiðu nærri Hafravatni. Mynd: Þorsteinn Tómasson.

Ribs dafnar vel í lúpínubreiðu. Líklega hefur runninn vaxið upp af fræi sem fuglar hafa dreift. Mynd: Þorsteinn Tómasson.

Þorsteinn Tómasson

1 thoughts on “Sólber (Ribes nigrum) og ribs (Ribes rubrum)

Comments are closed.