Skógarfróðleikur

Ætiskógurinn

Fyrir þau sem þurfa ástæðu til að dvelja í náttúrunni, er haustið kannski besti tíminn til að halda út í skóg. Það er hægt að fara í berjamó eða á sveppaskóg og koma heim með lostæti úr skóginum. En það er margt fleira í skóginum sem hægt er að nýta til matar. 

Grenitoppa má nota á margvíslegan hátt. Í Kanada er bruggaður úr þeim bjór. En einnig má nota nýjustu sprotana í saft eða sýróp. Greninálar er hægt að þurrka í duft og nota yfir eftirrétti, salöt eða í krydd. Eða búa til grenikrapa. Uppskriftir má til að mynda finna í bókinni Sveitasæla eftir Ingu Elsu Bergþórsdóttur og Gísla Egil Hrafnsson.

Greni- og furunálar má líka nota í margt fleira. Fyrirtækið Nordic Angan hefur framleitt skógarolíur, baðolíur, sápur og fleira úr íslenskum jurtum. Meðal annars sitkagreni úr Heiðmörk, og úr fjallaþin og rauðgreni. Fyrirtækið Hraundís framleiðir ilmkjarnaolíur með því að gufueima nálar af íslenskum fjallaþin, stafafuru, hvítgreni og fleiri trjátegundum.

Fleiri nýta afurðir skógarins — bæði í vöruframleiðslu og til eigin nota. Birkilauf eru til dæmis notuð í allt frá húðvörum til tes, eða bara beint í salöt. Birkisafi er notaður í drykki eða sýróp. Og svo er birkið auðvitað vinsælt til að reykja mat.

Sonja Bent hjá Nordic Angan segir frá framleiðslunni.
Gamlir mjólkurtankar eru notaðir til að eyma olíur úr grenigreinum. Olíurnar koma einkum úr barrinu sem þarf að vera ferskt.
Bláber þrífast vel í skóglendi.
Kúalubbi.

Ber, berjarunnar og ávaxtatré

Bláber vaxa vel í skógum. Og með vaxandi skógum verða til betri skilyrði fyrir skógarber eins og hrútaber. Þá er týtuberjalyng að finna á sífellt fleiri stöðum á landinu, þótt allur gangur sé á því hvort plantan nær að þroska ber. Þá vaxa rifsber, hindber og sólber villt í sumum íslenskum skógum. Í Esjuhlíðum hafa til dæmis hindber verið gróðursett, bæði í skóglendinu og í lúpínu- og kerfilsbreiður. Og í Heiðmörk er unnið að því að fjölga berjarunnum, einkum sólberjum og rifsi.

Nokkur þróun hefur orðið í ræktun annarra ávaxtatrjáa, svo sem epla-, peru-, plómu og kirsuberjatrjáa. Þótt loftslag sé nokkuð kalt á Íslandi fyrir flest þessara trjáa, þá eru til yrki sem hafa plumað sig vel á Íslandi. Auk þess sem mikið er hægt að gera til að búa þeim sem bestar aðstæður. Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur fær til að mynda uppskeru upp á tugi kílóa úr garði sínum á Akranesi. Í Heydal við Ísafjarðardjúp er ávaxtarækt í gamalli hlöðu, með bæði kirsuberjatré og plómutré. Og svo mætti lengi telja.

Þá eru til margir aðrir runnar sem þroska æt aldin og hafa dafnað vel á Íslandi. Til að mynda hafþyrnir, bersarunni, alaskaepli, ígulrós og hlíðaramall.

Ætiskógar

Í sumum grannlöndum okkar hafa verið gerða tilraunir með að rækta upp ætiskóga (food forest, forest garden, skogsträdgård, Waldgarten).

Þá eru tré, runnar, fjölærar plöntur og grænmeti gróðursett út frá aðstæðum og hvernig plönturnar vinna best saman — mynda skjól, nýta birtu og rými og miðla vatni og næringarefnum. Ætiskógurinn á ekki að þurfa mikla umhirðu eftir að hann er farinn að vaxa upp en gefa af sér fjölbreytta fæðu.

Tegundir sem notaðar eru í ætigörðum í Skandinavíu og Norður-Evrópu, eiga margar erfitt uppdráttar á Íslandi. En alls ekki allar. Áhugavert væri að gera tilraunir út frá hugmyndafræði ætiskógarins á Íslandi. Í svipuðum anda er til dæmis það að rækta upp berjarunna í lúpínubreiðum, sem hefur gefist mjög vel. Enda sér lúpínan runnunum fyrir áburði.

Lúpínuna sjálfa má svo nýta í miklu meira mæli en gert er á Íslandi. Úr lúpínufræju er sums staðar unnið mjöl, framleiddir drykkir og jafnvel lúpínu-bratwurst. Þá voru ristaðar lúpínubaunir stundum notaðar til að hella upp á kaffi í Ölpunum. Til að hægt sé að nota fræin í matargerð, þarf þó að losa þau við biturt, eitrað efni. Sem er oft gert með því að láta þau liggja í saltvatni.

 

Skjólbelti, skógarbeit, landgræðsla og umhverfisvernd

Um leið felast miklir möguleikar til umhverfis- og loftslagsverndar í því að tvinna saman skógrækt og fæðuframleiðslu.

Rannsóknir hafa sýnt að allt að fimmtíufaldur munur getur verið á því hvaða umhverfisáhrif fæða hefur. Og þá er átt við eina og sömu fæðugetundina.* Ástæðan getur til dæmis verið aðgengi að vatni, hvort ræktarlandið er nýtt með sjálfbærum hætti, hvort landbúnaðurinn veldur eyðingu vistkerfa, losun gróðurhúsalofttegunda við flutning, matarsóun eða annað.

Fyrir marga þessara þátta geta tré og skógar skipt sköpum. Til dæmis þegar kemur að vatnsmiðlun, jarðvegseyðingu og -myndun, og hringrás næringarefna. Með markvissri skóg- og trjárækt í tengslum við matvælaframleiðslu eykst líka kolefnisbinding í jarðveginum, sem verður frjósamari fyrir vikið. Trjá- og skógrækt getur til dæmis falist í því að rækta skjólbelti meðfram túnum og ökrum sem skapa skjól, bæta vatnsmiðlun, binda kolefni og auka líffræðilegan fjölbreytileika. Þá er hægt að rækta tré á beitarlandi eða beita skóga með stýrðum hætti. Eða nota tré og runna til að græða upp rofið land eða koma í veg fyrir rof, til dæmis á árbökkum eða í miklum bratta.

Sveppir

Vaxandi áhugi er að nýtingu matsveppa, enda hefur þeim fjölgað mikið samfara aukinni skógrækt.

Kúalubbi hefur lengi vaxið á Íslandi enda finnst hann oft innan um birki eða fjalldrapa. Aðrir góðir matsveppir finnst sífellt víðar. Má þar nefna kóngasvepp, lerkisvepp, furusvepp og gulbrodda. Í Heiðmörk má finna fjölda matsveppa.

Ekki borða neitt nema vera viss

Svo að allrar varúðar sé gætt, er rétt að taka fram að það getur verið varasamt að leggja sér til munns plöntur, ber eða sveppi sem maður þekkir ekki. Á Íslandi eru bæði eitraðar plöntur og sveppir.

Rúv birti þessa samantekt um eitraðar plöntur á Íslandi. Hún er ekki tæmandi.

Silke Werth tók saman þessar almennu reglur um sveppatínslu, fyrir Ferðafélag Íslands.