Fréttir

Innréttingar, parket og brýr úr viði úr Heiðmörk

Íslenskir skógar framleiða sífellt meira af gæðatimbri og góðum smíðavið, eftir því sem skógarnir vaxa og trén dafna. Þessi baðherbergisinnrétting er fallegt dæmi um nýtingu á þessum nýju verðmætum. Viðurinn er íslensk ösp sem felld var í byrjun árs í Heiðmörk.

Ari Þorleifsson byggingafræðingur segist hafa valið ösp vegna þess hve falleg hún er og nokkuð sérstæð í útliti. Hann segir að öspin hafi lítið sem ekkert verið notuð og gaman að prófa. Viðurinn sé mjúkur og fínt að vinna með hann.

Ari starfar hjá arkitektastofunni Basalt, og segir mikið lagt upp úr að nota umhverfisvæn efni í verkefnum sem stofan kemur að. Í Vök, nýjum baðstað við Urriðavatn hjá Egilsstöðum, hafi lerki úr nágrenninu verið notað í klæðningu og alla palla, sem og bekki í laugunum. Ari segist oft leggja það til við viðskiptavini að notað sé timbur, gjarna íslenskt, og fólk sé spennt fyrir því. Áhuginn á að nota íslenskt timbur í hvers kyns byggingar er svo sannarlega fyrir hendi að mati Ari, en helst spurning um magn og að auðvelt sé að nálgast efniviðinn.

Mynd: Ari Þorleifsson.
Mynd: Ari Þorleifsson.

Skógræktarfélag Reykjavíkur keypti fyrir nokkrum árum flettisög til að hægt væri að fletta trjáboli og búa til borðvið. Í sumar var opnuð timburverslun og er unnið að því að byggja upp lager af inniþurrum borðvið. Það er timbur sem búið er að þurrka og hægt er að nota til smíða utanhúss sem innan.

Viður úr Heiðmörk hefur einnig verið notaður til dæmis þegar hús félagsins á Múlastöðum var gert upp. Meðal annars í klæðningu utanhúss og parkett innandyra. Þar er einnig að finna borð úr lerki, rugguhest og leikföng unnin úr efniviði skógarins. Og við stígagerð í Esjuhlíðum í sumar hafa brýr og mannvirki úr timbri verið gerð úr íslensku timbri úr Heiðmörk.

Timburstæður af greni. Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson
Nýlega brú á Mógilsá við Esjustofu, unnin úr efni úr Heiðmörk. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.