Esjufréttir

Nýr göngustígur í Esjuhlíðum

Tæplega tveggja kílómetra, að miklu leyti nýr, stígur verður lagður í Esjuhlíðum. Stígurinn liggur frá Esjustofu við Mógilsá að bílastæðinu við Kollafjarðará, nærri Gunnlaugsskarði. Á mánudag var tilkynnt að Skógræktarfélag Reykjavíkur fengi 17 millljóna króna styrk til verkefnisins úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Áður hafði hafði verið veittur styrkur úr sjóðnum til að laga gönguleiðina upp að Steini í Esjunni, þar sem mikill leir er í stígnum á um 300 metra kafla. Því er ljóst að mikill kraftur verður í verkefnum Skógræktarfélagsins í Esjunni í ár.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haft umsjón með útivistarsvæðinu við Esjuna síðan um síðustu aldamóti. Félagið hefur meðal annars sinnt þar stígagerð og skógrækt

Útivistarsvæðin við Esjuna eru vinsæl og fjölsótt. Síðustu tvö ár hefur verið unnið að því að útvíkka skipulögðu útivistarsvæðin til að dreifa álagi og mæta þörfum ólíkra hópa. Hluti af gamla veginum upp Esjuhlíðar hefur verið lagfærður og lítið bílastæði gert við Kollafjarðará, neðan Gunnlaugsskarðs. Þar er búið að merkja ein gönguleið og tvær sérstakar fjallahjólaleiðir. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur átt í góðu samstarfi um þetta við verkfræðistofuna Eflu og hafa áhugasamir og dugmiklir starfsmenn Eflu virkjað sjálfboðaliðahópa í verk á borð við lagningu hjólastíga.

Sjálfboðaliðar við gerð hjólaleiða í Esju 2019. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.

Með nýja stígnum verður þetta nýja svæði tengt betur við bílastæðið og aðstöðuna við Mógilsá. Þannig skapast möguleikar til að dreifa álagi og minnka mjög hættu á árekstrum milli mismunandi hópa útivistarfólks og ferðamanna. Til dæmis verður betra aðgengi að skilgreindum hjólaleiðum og hlaupaleiðir greiðari. Þá opnast og aðgengi að trjásafni Skógræktarinnar.

Stígurinn verður um 1.850 metrar á lengd. Gera þarf þrjár nýjar brýr og endurgera eina sem nú er ónýt. Stígurinn meðal annars um mýrlendi, þar sem lagðar verða mýrarbrýr á um 90 metra kafla.

Öll brúargerð og mannvirki úr timbri verða úr íslensku efni sem er unnið úr Heiðmörk.

Nýlega brú á Mógilsá við Esjustofu, unnin úr efni úr Heiðmörk. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.