Fréttir

Hvað er gott kurl og hvernig virkar það?

Eftirspurn eftir kurli hefur sjaldan verið jafn mikil og síðasta sumar, að sögn starfsmanna Skógræktarfélags Reykjavíkur. Ástæðan var líklega hve margir vörðu sumarfríinu á Íslandi og notuðu tækifærið meðal annars til að sinna garðyrkju eða stígagerð.

Kurl hefur þann góða eiginleika að hamla vexti illgresis og hentar því vel í beð og stíga. Þá er efnið náttúrulegt og brotnar niður á 10-15 árum. Loks er kurl góð leið til að nýta afgangsvið.

En það er ekki sama kurl og kurl. Sævar Hreiðarsson, skógfræðingur og starfsmaður félagsins, vill helst bara kurla ferskan við. „Viðurinn á að ilma. Og það á ekki endilega að þurrka þetta þannig að það sé skraufþurrt. Kurlið virkar vel blautt og er þyngra, þannig að það helst á jörðinni og tollir betur.“

Sævar vill helst nota greni í kurl. Í grenikurli eru ákveðin efni sem hamla vexti illgresis. Kurlið seytir út efnum sem geta takmarkað spírun fræja. Þessi virkni er mest meðan kurlið er ferskt. „Trén eru með vörn gegn sveppum sem hemja líka spírun fræja. Þegar kurlið brotnar svo niður í jarðveginum, tekur það til sín köfnunarefni og hamlar spírun á meðan. Kurlið getur verið 10-15 ár að brotna niður.“ Segir Sævar.

Öflugar rætur komst auðvitað í gegnum krulið en ef hreinsað er sæmilega í burtu, ætti það að duga. Gott og ferskt kurl minnnkar þannig þörfina fyrir að hreinsa illgresi – hvort sem er úr beðum eða af göngustígum. Skógræktarfélag Reykjavíkur notar kurl til dæmis á áningarstöðum í Heiðmörk þar sem umferð er mikil.

Furu má einnig nota í kurl. Birki, víði og kurlaðan við af öðrum lauftrjám er aftur á móti betra að nota sem jarðvegsbæti. Viðurinn brotnar hraðar niður og hamlar ekki spírun og vexti annarra plantna, heldur þvert á móti.

Kurlsekkir við Smiðjuna. Mynd: Guðmundur Freyr Kristjánsson.

Kurlið sem er unnið og selt í smiðju Skógræktarfélagsins í Heiðmörk, er afgangsefni eftir grisjun. Á ákveðnum svæðum í Heiðmörk er hefur skógurinn dafnað það vel að nauðsynlegt er orðið að grisja, svo að trén geti haldið áfram að vaxa og dafna. Úr grisjunarviðnum er meðal annars unninn bolviður, borðviður, fánastangir og eldiviður. Afgansefni á borð við trjátoppa og hlykkjótt efni er svo notað í kurl.

Trjágreinar eru hins vegar ekki notaðar í kurl heldur skildar eftir í skóginum þegar grisjað er. Fyrir því eru tvær ástæður. Sú fyrri er að mikið er af sykrum í nálunum og því geta þær ýtt undir sveppagróður. Sævar vill því helst að kurlið sé alveg laust við greninálar því þá nær sveppagróður sér ekki á strik. Seinni ástæðan er að næringarefnin í nálunum gagnast öðrum trjám. Þess vegna, segir Sævar, á að skilja lauf og nálar og minni greinar eftir í skóginum þegar verið er að grisja.

Unnið að grisjun í Heiðmörk. Mynd: Hjördís Jónsdóttir.