Fréttir

Yfir 40 athugasemdir við skipulagslýsingu fyrir Heiðmörk

Á fimmta tug athugasemda barst við skipulagslýsingu fyrir nýtt deiliskipulag Heiðmerkur. Meðal annars frá einstaklingum, félagasamtökum, sviðum Reykjavíkurborgar og sveitarfélögum. Frestur til að senda inn ábendingar og athugasemdir rann út á miðnætti 2. júlí.

Meðal athugasemda eru óskir um aukið samráð og gagnrýni á að einblínt sé á vatnsvernd en ekki fjallað um útivist eða aðgengi fólks að Heiðmörk. Þá er víða nefnt að tryggja þurfi aðgengi barna, eldri borgara og fólks með fatlanir. Hvatt er til þess að meðalhófs sé gætt í öllum aðgerðum og staðið betur að því að kynna rök og rannsóknir sem liggja að baki fyrirhuguðum aðgengistakmörkunum.

Meðal þeirra sem sent hafa inn umsögn eru

  • Ferðafélag Íslands
  • Landvernd
  • Landssamtök hjólreiðamanna
  • Veiðifélag Elliðavatns
  • Hestamannafélögin Fákur og Sprettur
  • Miðstöð útivistar og útináms f.h. Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.
  • Menningar- og íþróttasvið Reykjavíkur
  • Dr. Jakob Frímann Þorsteinsson
  • Hundaræktarfélag Íslands
  • Mosfellsbær
  • Hafnarfjarðarbær
  • Garðabær

Skipulagslýsingu og umsagnir má nálgast hér: https://reykjavik.is/frettir/2025/skipulagslysing-fyrir-heidmork-i-skipulagsgatt#

 

Deiliskipulagsvinna

Starfshópur vegna deiliskipulagsvinnu í Heiðmörk fundaði 1. júlí. Stefnt er að því að greiningarvinnu vegna deiliskipulagsins ljúki í október. Í nóvember verði tillaga kynnt helstu hagsmunaaðilum og send til formlegrar umsagnar. Þá verði opið hús haldið fyrir almenning. Lokadrög eiga að liggja fyrir í desember 2025. Stefnt er að því að nýtt deiliskipulag fyrir Heiðmörk taki svo gildi í júní 2026.

 

Úr umsögnum

„Skógrækt á vatnsverndarsvæðum stuðlar að verndun viðkomandi svæða og kemur í veg fyrir sótt er í svæðið undir byggð eða aðra uppbyggingu. Það er því mikilvægt að viðhalda góðu samstarfi skógræktar og vatnsverndar til framtíðar“

-úr umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness

„aðgengi að Heiðmörk er einstök náttúruauðlind í höfuðborgarsvæðinu, en græn svæði í nánd við borgina eru takmörkuð og verða sífellt mikilvægari eftir því sem borgin þéttist.“
-úr umsögn Hundaræktarfélags Íslands

„Landvernd telur að mikil vinna sé óunnin í að tryggja þau verðmæti sem þjóðin á og felast í náttúru, gróðurvinjum og samfélagslegum verðmætum í Heiðmörk.“
(…)
„Aðalfundur Landverndar hvetur alla sem koma að framtíðarskipulagi Heiðmerkur til að virða almannarétt og beita meðalhófi í ákvarðanatöku. Þannig má tryggja að nauðsynleg verndun vatnsbóla verði ekki á kostnað aðgengis almennings að náttúru og útivistarsvæðum“
-úr umsögn Landverndar

„MÚÚ hefur verið með ýmiskonar starfsemi í Heiðmörk, enda eitt áhugaverðasta græna svæðið á höfuðborgarsvæðinu. Má þar nefna:
• Fjölbreytta starfsmannafræðslu í útinámi fyrir kennara og frístundaleiðbeinendur. (Allt frá minni námskeiðum upp í móttöku hópa á starfsdögum starfsstaða.)
• Ýmsa dagskrá og viðburði fyrir skólahópa og aðra hópa sem tengjast skóla- og frístundasviði. Allt frá einstaka bekkjum, upp í móttöku árganga eða skóla.
• Hjólafærni – tilraunaverkefni sem keyrt er út í skólum og nágrenni þeirra en Heiðmörk er einnig notuð sem æfingasvæði.
Oftast er tekið á móti hópum við Furulund og svæðið þar í kring notað. Í flestum tilvikum þarf að undirbúa móttöku hópa með því að setja upp ýmsan búnað sem á að nota í dagskránni. Ef ekki er hægt að komast á bíl þangað, til að flytja búnað, og ekki sé hægt að flytja hóp nemenda á svæðið, þá mun þessi starfsemi leggjast af.“
-úr umsögn frá Miðstöð útivistar og útináms f.h. Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur

„Þessi þrönga afmörkun tilgangs deiliskipulagsins er ekki viðunandi. Gildi þessa svæðis í dag er mun víðara en að afmarkast bara við verndun hreins neysluvatns (það kemur m.a. fram í rannsókn á virði þjónustu Heiðmerkur). Tilgangur deiliskipulagsins þarf að vera víðari og taka mið af gildi svæðisins fyrir útivist og tengingu almennings (og ferðamenn) við fjölbreytta náttúru Heiðmerkur.“
(…)
„að loka alfarið á akstur inn á ákveðin svæði lokar fyrir notkun svæðisins fyrir ákveðna notendur. Það er ekki viðunandi og dregur úr að inngilding sé höfð að leiðarljósi.“
-úr umsögn Dr. Jakobs Frímanns Þorsteinssonar

„FÍ telur mikilvægt að unnið sé eftir lögum um náttúruvernd, sem kveður á um almannarétt, sem og gætt verði meðalhófs í allri vinnu og ákvarðanatöku. Félagið telur að margar leiðir séu færar til að ná markmiðum um vatnsvernd, án þess að skerða hlut útivistar.“
-úr umsögn Ferðafélags Íslands