Fréttir

Vormarkaður á Elliðavatni um næstu helgi

himbrimi_jakob_sigurdsson

Nú er vorlegt um að litast í Heiðmörk og fjölgar gestum sem þangað sækja ár frá ári. Það er kominn vöxtur í allan gróður, flugan lætur finna fyrir sér  og veiðin í vatninu hafin fyrir nokkru síðan. Farfuglar eru mættir á staðinn og láta vel í sér heyra, nú síðast sá sjaldgæfi fugl himbrimi (sjá mynd).

Skógræktarfélagið  stendur fyrir  Vormarkaði á Elliðavatni í annað sinn dagana 13.-15. maí næstkomandi. Á föstudegi er opið klukkan 15-18, en 10-18 laugardag og sunnudag. Félag trérennismiða er með stóra sölusýningu í Gamla salnum og verður  með heitt á könnunni. Þá verður  sýnikennsla í  listinni að renna í tré úti á hlaði. Á laugardeginum er opin  hestaleiga, þar sem teymt er undir börnum í gerði við bæinn.  Þá verður kynning á stafgöngu á vegum ÍSÍ eftir hádegi og síðdegis verður síðan Vorblót að Vatni á vegum Ásatrúarmanna, sem bjóða öllum að fagna gróandanum með sér. Fuglavernd og Ferðafélag Íslands verða með kynningu á starfseminni og bjóða fólki í fræðslugöngur á meðan á Vormarkaðnum stendur.  Áhugafólk um veiði getur kynnt sér fluguhnýtingar á föstudegi og um helgina verða kennd undirstöðuatriðin í  að kasta flugu og kastkeppni fer síðan fram á sunnudag.Gámaþjónustan býður öllum upp á ókeypis moltu  í garðinn -og ekki má gleyma Skógræktarfélaginu sem hefur til sölu hnaustré, eldivið, bolvið og kurl og  einnig munu skógarmenn sýna nýjustu vélar sínar  að störfum á laugardeginum.

___________________________________________________________________________________________________________________