Heiðmörk og annað skóglendi á Íslandi er gríðarlega verðmætt. Og ekki af því að timbrið sé svo dýrt.
Íslenskt skóglendi er afar verðmætt, sérstaklega það sem er í nágrenni þéttbýlisstaða og veitir tækifæri til útivistar og margskonar vistkerfisþjónustu. Þetta er eitt af því sem fjallað var um á Fagráðstefnu skógræktar, sem nú stendur yfir á Akureyri.
Það er auðvelt að horfa á auðlindir út frá hráefnunum og hve mikið er hægt að hagnast á þeim. Hvort sem það eru fiskveiðar, námavinnsla, virkjanir eða timburframleiðsla. Heildarmyndin er þó oftast flóknari. Og þegar kemur að skógum á Íslandi, er verðmæti timbursins og kolefnisbindingarinnar oft lítill hluti af heildarverðmætinu.
Fyrir nokkrum árum var lagt mat á verðmæti Heiðmerkur út frá ýmsum þáttum, svo sem vistþjónustu skóglendisins, vatnsvernd og lýðheilsu. Einna verðmætast var útivistargildi friðlandsins. Og svo er auðvitað verðmætt fugla- og dýralíf, gróður, timbur og vatnsbólin. Virði Heiðmerkur var talið vera á bilinu á 36-87 milljarðar, árið 2015. Það jafngildir 51-124 milljörðum króna á núvirði. Þótt auðvitað finnist flestum Heiðmörk, og náttúran almennt, ómetanleg.
Arnór Snorrason, sérfræðingur hjá Landi og skógi, kom inn á þetta í erindi sínu um skógarauðlindina. Í útdrætti úr erindi hans sagði meðal annars „Markverðustu niðurstöður þessarar rannsóknar voru að menningarlegt verðmæti svæðisins sem útvistarsvæðis var margfalt meira en önnur verðmæti sem lagt var mat á, þar á meðal kolefnisbinding og viðarmagn. Ég held að þessi niðurstaða sé mjög mikilvæg fyrir sveitarfélögin og ýti undir að útivistarsvæði og útivistarskógar í nágrenni þéttbýlis fái meira vægi og vernd. Einnig hefur verið að koma meira og meira í ljós að útivist þéttbýlisbúa í náttúrulegu umhverfi, ekki síst skóglendi, hefur mjög jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu okkar.“
Daði Már Kristófersson, prófessor við Háskóla Íslands, fjallaði um hagræna stöðu skógarauðlindar á Íslandi. Hann benti á að skógrækt snúist langt í frá bara um framleiðslu skógarafurða. Og fjallaði um hvernig meta megi framlag náttúrunnar, svokallaða vistkerfaþjónustu, til fjár. „Vistkerfisþjónusta skóga er margvísleg, timburafurðir, aðrar skógar- afurðir, útivist og náttúruupplifun, skjól, vatnsbúskapur, jarðvegsmyndun og kolefnisbinding, svo nokkuð sé nefnt“ sagði í útdrætti úr erindi Daða.