Sögudagatal

Vígsluflöt 1950 og 2020

Vígsluflöt í Heiðmörk er áningarstaður þar sem um fólk getur komið saman í hjarta friðlandsins. Flötin rúmar allt að 100 manns en umhverfis hana eru hávaxin tré sem mynda skjól og fagurt umhverfi.

Eitt þessara trjáa er sitkagreni sem gróðursett var af þáverandi borgarstjóra, Gunnari Thoroddsen, sumardag einn fyrir sjötíu árum. Þennan dag, 25. júní 1950, var mikið margmenni á og við Vígsluflöt – um 2.500 til 3.000 manns – til að fagna stofnun friðlands Reykvíkinga í Heiðmörk.

Árið 1950 var gróðursetning trjáplantna í Heiðmörk nýhafin. Við Vígsluflöt var mólendi og lágvaxið birkikjarr. Annars staðar í Heiðmörk var gróður víða illa farinn, talsvert um rofabörð og uppblástur úr Elliðavatnsheiðinni. Í Undanfara, rétt við Vígsluflöt, höfðu fyrstu trjáplönturnar verið gróðursettar árið á undan, um fimmþúsund talsins. Þá voru enn engir vegir í Heiðmörk og þurfti því að reiða plöntur og verkfæri á hestum. Vegaleysið gerði mönnum líka erfitt um vik að girða Heiðmörk fyrir búfénaði. Flytja þurfti allt girðingarefni á hestum. Það var ekki lítið verk þar sem upphaflega girðingin var átján kílómetrar á lengd. Haustið 1949 var lagður vegur um það bil þar sem nú er Heiðarvegur, sem liggur meðal annars að Vígsluflöt.

Trjágróður umhverfis Vígsluflöt hefur vaxið og braggast, líkt og gróður víðast hvar í Heiðmörk. Fyrstu árin var mikið gróðursett af birki, skógarfuru, sitkagreni og Síberíulerki. Uppgræðsla og skógrækt hefur aukið skjól í Heiðmörk og gert jarðveginn frjósamari auk þess sem þekking á mismunandi trjátegundum og kvæmum, og aðgengi að þeim, hefur stórbatnað. Trjágróður í Heiðmörk er því sífellt að verða fjölbreytilegri.

25. júní í sumar var 70 ára afmæli Heiðmerkur fagnað á Vígsluflöt. Þá voru 70 tré gróðursett við Vígsluflöt. Þar á meðal alaskaepli, gullregn og bergreynir. Því miður gat aðeins takmarkaður fjöldi fólks verið viðstaddur, vegna heimsfaraldurs Covid.

Gunnar Thoroddsen borgarstjóri heldur ræðu við vígslu Heiðmerkur, 25. júní 1950. Mynd: Ljósmyndastofa Sigurðar Guðmundssonar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á Vígsluflöt, Heiðmörk, 25. júní 2020. Mynd: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.

70 ára afmælisár Heiðmerkur, 2020, er senn á enda. Næsta ár markar önnur tímamót því Skógræktarfélag Reykjavíkur fagnar 120 ára afmæli árið 2021. Nýtt sögudagatal, helgað sögu félagsins, verður á samfélagsmiðlum og á heidmork.is. Þá er stefnt að því að fagna afmælinu með ýmsum viðburðum, eftir því sem baráttan gegn Covid-faraldrinum leyfir.

Skógræktarfélag Reykjavíkur þakkar samfylgdina á árinu og óskar félagsmönnum og velunnurum gleðilegs og gæfuríks nýs árs.

Þessi umfjöllun er hluti af afmælisdagatali að tilefni þess að 70 ár eru frá opnun Heiðmerkur. Hægt er að fylgjast með afmælisdagatalinu á Instagram og Facebooksíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.