Trjátegund mánaðarins

Víðir (salix)

Ættkvíslin Salix (víðir) hefur að geyma u.þ.b. 400 tegundir af lauffellandi trjám og runnum sem vaxa fyrst og fremst í rökum jarðvegi á köldum og tempruðum svæðum á norðurhveli jarðar. Sumar víðitegundir, einkum þær sem vaxa á heimsskautasvæðum eða hátt til fjalla (s.s. grasvíðir eða smjörlauf; Salix herbacea), eru jarðlægir runnar. Grasvíðirinn nær sjaldnast að verða hærri en 6 cm ofan við yfirborð jarðvegs. Til eru víðitré í heiminum af tegundum sem ekki vaxa hérlendis sem náð hafa að verða yfir 20 metra háar, en slíkt er undantekning á heimsvísu fyrir tegundir af víðiættkvíslinni. Hávaxnasta víðitegund sem ræktuð hefur verið hérlendis er selja (Salix caprea). Sú tegund getur í heimkynnum sínum náð 13 metra hæð og virðist raunin hin sama hérlendis.

 

Safi víðitrjáa inniheldur víðisýru (salisýlsýru) og var sýran úr þeim safa notuð í þúsundir ára til að lina verki og þjáningar hjá mannfólki áður þýski efnafræðingurinn Felix Hoffmann fann upp aðferð til að nýmynda efnasambandið á tilraunastofu. Upp úr því var lyfið framleitt af lyfjafyrirtækinu Bayer og markaðssett undir nafninu ‘Asperín’. Viður víðisins er mjúkur en nokkuð sterkur og þykir heppilegur til útskurðar. Árssprotarnir eru langir og grannir og voru fyrrum mikið notaðir til körfugerðar. Ræktaðar voru víðiekrur til körfugerðar víða í norðanverðri Evrópu sem urðu grunnurinn að mikilli iðngrein sem lagði upp laupana þegar pappakassar, plastumbúðir og fleiri ráð til að geyma og flytja varning leystu körfurnar af hólmi.

Almennt eru víðitegundir ljóselsk og skammlíf tré sem þurfa mikið lífsými og þola illa skuggavarp frá hávaxnari trjám. Fyrir því eru þær úti í náttúrunni háðar stöðugri röskun til þess að halda velli á búsvæðum gagnvart skuggþolnari tegundum. Fræin eru örsmá, berast með svifhárum langar leiðir og eru lífvænleg aðeins í fáa daga og þurfa fræin að komast í hlýjar og rakar aðstæður til þess að geta spírað og skotið rótum. Auk þess geta víðitré auðveldlega endurnýjað sig með stúfsprotum þótt trén sé felld. Fjölga má flestum víðitegundum með vetrargræðlingum (sprotum eða greinum sem stungið er í jarðveg að vorlagi). Slíkt á samt ekki við um stórvöxnustu víðitegundina sem hér vex; fyrrnefnda selju (S. caprea); þeirri tegund þarf að fjölga með sáningu fræja eða með sumargræðlingum í gróðurhúsi.

 

Víðitegundir eru almennt meðal fyrstu trjátegunda til þess að vakna úr dvala á vorin. Þó fer það mjög eftir tegund, kvæmi eða klóni hve snemma að vorinu dvalarofið á sér stað, auk hitafars. Laufgun og blómgun fer jafnan af stað að vorlagi um leið og dagshitinn fer yfir 10°C marga daga í röð. Víðitegundir eru langflestar sérbýlistré, þ.e. trén eru ýmist karlkyns eða kvenkyns.

Karlblóm á sjálfsánum alaskavíði (eða tegundablendingi alaskavíðis) við Esjustofu á Mógilsá. Karlblóm á víði eru mesta augnayndi á vorin. Víðiblóm eru auk þess mikilvæg fæða fyrir humlur, fyrst á vorin.

Sjálfsáð, karlkyns víðitré sem skotið hefur rótum framan við Esjustofu á Mógilsá. Líklega blendingur alaskavíðis við einhverja aðra víðitegund (selju eða jörfavíði).

Víðiblómin framleiða hunangslög og frjókorn að vorlagi sem eru mikilvæg fæða fyrir humlur og býflugur – og um leið fyrir býflugnarækt – einkum vegna þess hve víðitré og -runnar blómgast snemma að vorlagi, um leið og humlurnar vakna til lífs á vorin. Karlblóm víðirunna þykja mikið augnayndi fyrir mannfólk á vorin. Blaðlýs sækja mikið á víði. Í löndum þar sem er að finna maura, eru blaðlýs og hunangsdögg frá blaðlúsum á víði mikilvæg fæða þeirra. Hérlendis nýta geitungar lýsnar og hunangsdöggina á sama hátt sem fæðu og orkuuppsprettu.

Víðitegundir eiga margar auðvelt með að æxlast saman og mynda frjóa tegundablendinga, bæði úti í náttúrunni og í ræktun. Þekkt alþjóðlegt dæmi um skrauttré sem orðið hefur til við æxlun milli víðitegunda er grátvíðirinn (Salix × sepulcralis), sem er blendingur af pekingvíði (Salix babylonica) frá Kína og hvítvíði (Salix alba) frá Evrópu. Fjölmargar nýjar víðiblendingstegundir hafa verið búnar til með víxlun milli víðitegunda í gegnum aldirnar, í fjölbreyttum ásetningi; til körfugerðar, til líforkuframleiðslu, tils krauts, til þess að veita skjól og til þess að koma í veg fyrir vatnsrof á árbökkum.

Safn af ýmsum víðitegundum í landi Kollafjarðar. Fremst má sjá ýmsa klóna af íslenskum gulvíði (Salix phylicifolia). Hávöxnu víðitrén sem standa í röð næst gulvíðinum eru blendingar selju (S. capra) og alaskavíðis (S. alaxensis). Hvert tré í þeirri röð er fræplanta, ýmist karl- eða kvenkyns. Næstu raðir eru ýmsir klónar af alaskavíði (S. alaxensis). Margar víðitegundir eiga auðvelt með að æxlast saman og mynda frjóa afkomendur. Má þar nefna að selja getur æxlast við alaskavíði, jörfavíði og loðvíði og eru víðitegundablendingar orðnir all-algengir í röskuðu en beitarfriðuðu landi, svo sem í vegköntum.

Sama röð af alaskavíði x seljublendingum og að ofan, séð frá öðru sjónarhorni. Allar líkur eru á að flestir klónar þessa blendings sé auðveldara að fjölga með vetrargræðlingum en selju.

Víðir á Íslandi

Á Íslandi vaxa frá fornu fari fjórar víðitegundir sem eiga það sameiginlegt að vera fremur lágvaxnar. Hávöxnust þeirra er gulvíðir (Salix phylicifolia) sem orðið getur 5 m hár á bersvæði og jafnvel enn hærri í góðu skógarskjóli. Hann vex gjarnan þar sem nokkur jarðraki er fyrir hendi (í deiglendi, á bökkum áa, tjarna eða stöðuvatna) og myndar gjarnan undirgróður í birkiskógum. Loðvíðir (Salix lanata) vex um allt land og hátt til fjalla. Þar sem hann nýtur beitarfriðunar, getur hann orðið allt að 2 m hár á fremur þurru og næringarefnarýru landi. Fjallavíðir (Salix arctica) er sömuleiðis algengur um allt land og vex enn hærra til fjalla. Hann er lágvaxinn eða jarðlægur runni (15–60 cm). Grasvíðir eða smjörlauf (Salix herbacea) nær hæst til fjalla (upp fyrir 1000 m h.y.s.) hann er lágvaxnastur allra víðitegunda og jarðlægur.

Jörfavíðir (Salix hookeriana) sem gróðursett hefur verið utan í snjóflóðavarnargarðana ofan Siglufjarðar fyrir 1-2 áratugum. Jörfavíðir hentar einkar vel til þess að mynda skjótt skjól í fremur rýrum jarðvegi við sjávarsíðuna um land allt. Þar verður hann sjaldan eða aldrei fyrir kalskemmdum.

Selja (Salix caprea) á Mógilsá. Selja er stórvaxnasta víðitegund sem vaxið getur á Íslandi. Þetta tré – sem stendur framan við hús Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá er komin á fimmtugsaldur og var gróðursett seint á 8. áratug síðustu aldar. Ólíkt öðrum víðitegundum, er erfitt að fjölga selju með vetrargræðlingum. Selju er yfirleitt fjölgað með því að safna fræi fyrripart sumars, sá því strax og prikla fræplönturnar í potta, ellegar með sumargræðlingum við góðar aðstæður í gróðurhúsi. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Bakkar dragáa verða fyrir tíðri röskun, í vorleysingum og stórrigningum. Séu slíkir árbakkar friðaðir fyrir búfjárbeit, bjóða þeir upp á heppilegar aðstæður fyrir sjálfsánar víðiplöntur (alaskavíðis, jörfavíðis og víðiblendinga) til að komast á legg og mynda skóga á árbökkum og auka lífríkið í vatnsföllunum. Engin þeirra trjáa og runna sem sjást á þessari mynd hefur verið gróðursett; allar eru þær sjálfsánar. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Þegar garðrækt hófst í íslenskum þéttbýlisstöðum seint á 19. öld, var tegundaval á víði (líkt og á fleiri trjátegundum) harla lítið á Íslandi. Nokkrar tegundir bárust til landsins frá Danmörku, þ.á.m. gljávíðirinn sem Schierbeck landlæknir gróðursetti í Aðalstræti 9 í Reykjavík. Nokkrir klónar af körfuvíði og körfuvíðiblendingum bárust til landsins sem lifandi sprotar í körfum. Var þeim stundum komið til lífs og urðu nokkrir þeirra (svo sem ‘Vesturbæjarvíðir’ eða ‘Þingvíðir’) nokkuð algengir í garðrækt á tímabili. Það var ekki fyrr en seint á 4. áratug síðustu aldar sem hingað bárust fyrst nokkrar víðitegundir frá Norður-Noregi; viðja (Salix myrsinifolia) og selja (S. caprea). Sú fyrrnefnda varð uppistaðan í mörgum skjólbeltum og limgerðum landsmanna, allt þar til asparglyttan tók að herja á tegundina víða um land fyrir einum áratug. Ásamt mörgum öðrum innfluttum tegundum frá Alaska eftir seinni heimsstyrjöld komu til skjalanna víðitegundir sem áttu eftir að verða afar vinsælar til skjólbeltaræktar um allt land. Þeirra algengastar urðu alaskavíðir (S. alaxensis) og jörfavíðir (S. hookeriana). Jörfavíðir er farinn að verða æ vinsælli í mörgum tilgangi, ekki aðeins til skjólbeltaræktar. Ýmsir valdir klónar hans hafa reynst prýðilega aðlagaðir veðráttu, vindþolnir og saltþolnir víða um land, þ.á.m. meðfram suðurströnd landsins og á annesjum Norðanlands. Jörfavíðir nýtist einnig ágætlega til landgræðslu, því hann virðist geta vaxið og dafnað í næringarsnauðum og þurrum jarðvegi, svo sem á söndum Suðurlands eða á snjóflóðavarnargörðum á Vestfjörðum, Austfjörðum og á Tröllaskaga. Þessar víðitegundir sjást orðið ekki bara á svæðum þar sem þær hafa verið gróðursettar: Þær hafa reynst duglegar við að sá sér út í röskuðum en beitarfriðuðum vegköntum eða á bökkum dragáa. Þær gera sig víða heimakomnar og eru orðnar hluti af íslenskri náttúru.

 

Aðalsteinn Sigurgeirsson

 

Nánar um þessar og fleiri víðitegundir sem eru í ræktun á Íslandi:
Víðitegundir (af vef Skógræktarinnar)

Víðitegundir (af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands)