Mikil úrkoma hefur verið í Reykjavík í haust. Í október var hún 125,3 mm, sem er 60% umfram meðallag áranna 1991 til 2020, samkvæmt heimasíðu Veðurstofunnar. Stór hluti úrkomunnar féll á tveimur sólarhringum í upphafi mánaðarins. Þessi mikla rigning olli skemmdum á brúm og stígum í Esjuhlíðum.
Í vikunni fóru starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur á svæðið með tól og tæki og gerðu við tvær brýr til bráðabirgða. Skipt var um brúargólf og undirstöður styrkar í brúnni í Þvergili. Hún ætti nú að vera sem ný. Grjót var sett undir brúna til að styrkja undirstöðurnar og koma í veg fyrir að lækurinn grafi undan henni þegar mikið er í honum.
Stóra brúin við Fossalautir þurfti líka á endurbótum að halda. Hægt var að laga handrið hennar að hluta til en fjarlægja þurfi annan hluta. Til stendur að gera almennilega við stóru brúna næsta vor. Þá voru sett upp skilti um fallhættu sitt hvoru megin við stóru brúnna.
Í vetur mælumst við hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur til þess að valin sé vestari leiðin upp að steini, í gegnum Einarsmýri. Sú leið er einnig hættuminni með tilliti til sjósöfnunar yfir vetrarmánuði.
Það er gaman að geta gengið á Esjuna allt árið um kring. Veður geta auðvitað verið misjöfn og jafnvel varasöm á Íslandi. Því er ekki úr vegi að hvetja fólk til að fara að öllu með gát, sérstaklega nú þegar snjór og hálka eru byrjuð að láta á sér kræla.