Fréttir

Verðlaunabirki von der Leyen verður gróðursett í Heiðmörk

Skógrækt og sjálfbærni bar á góma á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum 2022 sem veitt voru á laugardagskvöld í Hörpu.

Ný verðlaun, sjálfbærniverðlaun, voru veitt í fyrsta skipti á laugardag. Verðlaunin voru þó ekki veitt neinni kvikmynd í þetta skipti, heldur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir græna samkomulagið. Því er ætlað að tryggja kolefnishlutleysi svæðisins um miðja þessa öld.

Verðlaunagripurinn í ár er íslenskt birkitré, sem verður gróðursett með vorinu í Evrópska kvikmyndaskóginum í Heiðmörk. Kvikmyndaskógurinn er á landnemaspildu Evrópsku kvikmyndaakademíunnar (EFA) í Heiðmörk, við Löngubrekkur. Um 4000 tré hafa þegar verið gróðursett í skóginum.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tók á móti verðlaununum. „Við þurfum öll að grípa til aðgerða í loftslagsmálum“ sagði Von der Leyen. Evrópusambandið geti og hafi gert margt, eins og að setja ákveðin markmið og ráðast í fjárfestingar sem styðja við orkuskipti og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda. En stjórnvöld geti bara gert ákveðið mikið – það þurfi allir að leggja sitt að mörkum.

Hægt er að horfa á verðlaunaveitinguna á RÚV.is. Veiting sjálfbærniverðlaunanna hefst á 51. mínútu.

Evrópski kvikmyndaskógurinn er hugarfóstur Benedikts Erlingssonar, leikstjóra og áhugamanns um skógrækt.

Benedikt ræddi verkefnið til að mynda í þættinum Sumarmál á Rás 1 síðasta sumar. Hægt er að hlusta á þáttinn hér.