Fréttir

Útilífsmiðstöðin Vífilsbúð rís í Heiðmörk

Skátafélagið Vífill og Garðabær eru nú að ljúka við byggingu nýrrar Útilífsmiðstöðvar í Heiðmörk sem mun heita Vífilsbúð. Byggingin er á tveimur hæðum – 200 fermetra meginhæð og 100 fermetra svefnloft þar sem verður gistirými fyrir 30 krakka.

 

Vífilsbúð verður skátaskáli og útilífsmiðstöð Garðabæjar. Til stendur að skólar geti nýtt hana á virkum dögum enda aðstaðan og umhverfið hentug fyrir útikennslu og kennslu í náttúrufræði. Þá kemur til greina að þarna verði viðburðir í tengslum við útivist almennings, í samstarfi við Garðabæ.

 

Björn Hilmarsson, formaður húsnefndar skátafélagsins Vífils, segir að framkvæmdir hafi gengið vel. Búið sé að mála og flísaleggja. Næst verði settar upp innréttingar og gengið frá hurðum og slíku. Björn vonast til að húsið verði tekið í notkun á þessu ári. Búið er að lagfæra og bæta línuveg sem liggur að Vífilsbúð.

 

Vífilsbúð er nærri Grunnuvötnum. Björn segir að svæðið umhverfis Vífilsbúð henti afar vel. Þarna sé góð aðstaða til útiveru, náttúra, gróður og stutt í hella.

Líklega er myndin tekin í Vífilsstaðahlíð, um 1965-67. Stafafuran á myndinni var gróðursett árið 1958.

Grunnuvötn eru fyrir ofan Vífilsstaðahlíð sem varð hluti af Heiðmörk árið 1957. Landnemahópar hafa verið að störfum á svæðinu í áratugi. Gróður hefur tekið miklum framförum þótt enn sé ekki samfellt gróðurþekja á öllu svæðinu. Mikið er um sjálfsáð birki auk þess sem talsvert hefur verið gróðursett af stafafuru. Aðgengi að svæðinu var nokkuð erfitt lengi vel en undanfarið hefur mikið verið gert til að bæta það. Meðal annars hafa verið lagðir göngustígar sem eru hluti af Sólarhring (gönguleið merkt gul) og Hlíðahring (fjólublá gönguleið). Mikið er unnið við nýgróðursetningaar á þessu svæði þessi misserin.

 

Skógræktarfélag Reykjavíkur óskar skátum og Garðbæingum til hamingju með Vífilsbúð.