Urriðakotshraun, á mörkum Heiðmerkur og Garðabæjar, hefur verið friðlýst sem fólkvangur. Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir rúmlega átta þúsund árum. Hluti hins friðlýsta svæðis liggur innan Heiðmerkur.
Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að friðlýsingunni sé ætlað að tryggja aðgengi almennings að svæðinu og vernda jarðmyndanir, menningarminjar og gróðurfar svæðisins. Urriðakotshraun búi yfir „fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og miklum möguleikum til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu“. Í Urriðakotshrauni er nokkuð um hraunhella, þar á meðal Maríuhellar og Selgjárhellar.
Friðlýsingin nær til hluta Vífilsstaðahlíðar, meðal annars svæðis þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur ræktað upp skóg. Skógrækt verður áfram heimil innan þess svæðis.