Þægileg gönguleið á Kistufell í Esju (um 840 m ) er upp suðausturhornið, amk. í góðu veðri á sumrin. Leggja má af stað frá Norður-Gröf, með leyfi húsráðenda ef því er að skipta. Á leiðinni er heilsað upp á Karlinn neðarlega í hlíðinni. Leiðin er ekki fjölfarin og óljós og ekki mælt með halarófu vegna hættu á grjóthruni.
Uppi á Kistufelli er mosi og grasvíðir útbreiddur og stöku fjallavíðir milli stórra melatígla.
Stefnan tekin í Gunnlaugsskarð að lífsseigu fönninni/ skaflinum sem á seinni árum hefur alveg horfið, amk. séð frá Reykjavík. Er það talið til marks um hlýnandi veðurfar almennt. 11.9.2011 átti hann töluvert eftir og var fimmskiptur. Gunnlaugsskarð ætti frekar að kalla Gunnlaugsskál, en verður varla breytt úr þessu. Frammi á brún er lagleg varða og þaðan hlykkjast slóð niður í lægðina fyrir neðan og er þá svipmikið gljúfur á hægri hönd þar sem Kollafjarðaráin byrjar ferð sína.
Þá eru tveir kostir í stöðunni: Annar að fylgja ánni niður á láglendi og ganga svo austur undir Kistufellinu að upphafsstað. Hinn er að halda nokkurn veginn hæð í grónum skriðum fellsins á hálfgerðum stalli undir klettunum. Þegar komið er út á SV hornið er stefnan síðan tekin skáhallt niður að Norður-Gröf og má þá að mestu losna við giljaklöngur.
Á SV horninu sést sár í klettunum uppi undir móbergslaginu og töluvert bjarg (jökulberg?) sem hrundi í Suðurlandsskjálftanum 29. maí 2008 fyrir augum skógræktarmanna. Hvað sem öðru líður er tilbreyting að hafa nákvæma dagsetningu á hreyfingu bjarganna á þessum slóðum.
Komið aftur að bílnum við Norður-Gröf eftir uþb. 4 klst. rólega göngu.
Þeir sem vilja ganga á SV horn Kistufells stefna á sjálft hornið og er fast undir fæti þar til komið er upp fyrir móbergsklettana sem sjást á myndinni hér fyrir ofan. Eftir það flækist málið því engin skýr merkt leið er enn sem komið er þennan síðasta áfanga. Nokkuð góður kostur er að fara upp grýtt gil rétt norðan við hornið þar til gilið lokast, þá er farið til vinstri og er þá greið leið um klettana upp á brún. Önnur augljós leið er upp grýtta skriðu rétt austan við hornið.
KB