Fréttir

Undirbúningur fyrir Jólamarkaðinn í fullum gangi

Undirbúningur fyrir Jólamarkaðinn í Heiðmörk, sem haldinn er allar aðventuhelgar, er nú í fullum gangi. Verið er að setja upp nýja jólaseríu á Elliðavatnsbæinn, jólahúsin eru komin á torgið og byrjað er að sækja lítil jólatré út í skóg til útbúa hin sívinsælu tröpputré. Miðað er við að Jólamarkaðurinn verði með hefðbundnustu sniði, þ.e. fullskipaður handverksmarkaður og barnabókahöfundar lesi úr verkum sínum yfir varðeldi í Rjóðrinu. Allt er þetta þó háð þeim sóttvarnarreglum sem í gildi verða en Jólamarkaðurinn mun laga sig að reglum og gera nauðsynlegar breytingar á skipulagi ef þörf er á.

Sem fyrr verður lögð áhersla á ljúfa og notalega stemmningu á Jólamarkaðnum. Það er hefð hjá fjölmörgum að kaupa jólatré hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Fyrir hvert selt tré eru gróðursett 50 tré og styðja kaupendur jólatrjáa því við skógrækt með kaupunum. Torgtréð við Elliðavatnsbæinn þetta árið verður prýtt skrauti sem Védís Jónsdóttir prjóna- og fatahönnuður hannar sérstaklega. Efniviðurinn í skrautið eru gamlar óseljanlegar lopapeysur úr fataflokkun Rauða krossins. Einvala lið barnabókahöfunda les úr bókum í Rjóðrinu kl. 14 alla markaðsdaga. Má þar nefna Sigrúnu Eldjárn, Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, Gunnar Helgason, Gerði Kristnýju, Sævar Helga Bragason, Súsönnu M Gottsveinsdóttur, Sigrúnu Elíasdóttur og Þorgrím Þráinsson.

Fyrsti opnunardagur Jólamarkaðarins í Heiðmörk er laugardaginn 27. nóvember. Þann dag verður skrautið á torgtrénu opinberað og sönghópur frá Norðlingaskóla tekur lagið auk annarra dagskrárliða. Opið er allar aðventuhelgar kl. 12-17.

Við hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur hlökkum til að njóta notalegrar jólastemmningarinnar í Heiðmörk.

Lítil grenitré sem grisjuð hafa verið úr skóglendinu og verða notuð í tröpputré.

Elliðavatnsbærinn í jólabúningi.