Fréttir

Umsögn Skógræktarfélagsins

Umsögn Skógræktarfélags Reykjavíkur um tillögur nefndar umhverfisráðherra að drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, með síðari breytingum.  

Á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins liggja fyrir frumvarpsdrög til laga um breytingum á náttúruverndarlögum. Lögin hafa mikil áhrif á þann flokk náttúru og umhverfisverndar sem kallast skógrækt.  Vinnuhópur Umhverfisráðuneytisins hefur ekki haft samráð við skógræktaraðila við gerð dragana því í því koma fram tillögur og hugmyndir sem túlka má þannig að þær geti reynst skógrækt beinlínis skaðlegar. Vakin er athygli á að stofnun sem á sér 100 ára sögu heyrir nú undir ráðuneytið og þar er að finna sérfræðikunnáttu og þekkingu á málaflokknum skógrækt.

 

Hér verða aðeins nefnd  tvö dæmi í drögunum af mörgum sem gætu reynst skaðleg fyrir skógrækt:

 

Í drögum að 41. grein er hagsmunaaðilum mismunað um heimildir til innflutnings tegunda og er það ósanngjarnt og ber að leiðrétta. Þá er það ósanngjörn lagasetning að banna allt nema sótt sé sérstaklega um leyfi ríkisvaldsins. Meðal þeirra skilyrða sem sett eru fyrir leyfisveitingu á innflutningi er að ekki stafi „hætta“ af og „ógni“ ekki lífríki landsins. Engar skilgreiningar eru lagaðar fram um hvað telst ógn eða hætta og því hefur framkvæmdavaldið sjálfdæmi um túlkun þess hverju sinni. Þetta er fráleit tillaga að lögum.

 

Þá er í 41.gr. gerð tillaga um að ráðherra verði veitt heimild til að fara inn á eignarlönd og útrýma tegundum sem ríkisvaldinu ekki líkar. Þessi grein er bein aðför að stjórnarskrár vörðum eignarrétti einstaklinga og ber að fella hana niður.

 

Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur hvetur því Umhverfisráðuneytið til að leggja þann hluta frumvarpsdraganna sem snertir innflutning plantna og skógrækt til hliðar og hefja síðan faglega vinnu að undirbúningi breytinga á náttúruverndarlögum þar sem sérfræðingar í málaflokknum skógrækt leiði gerð nýrra frumvarpsdraga sem snerta þennan þátt náttúruverndar.

 

F.h. stjórnar Skógræktarfélags Reykjavíkur

_________________________________

Helgi Gíslason framkvæmdastjóri