Fréttir

Umhverfislistaverk, nýir stígar og nýr áningarstaður í Finnmörk

Finnmörk er landnemaspilda Finna í Heiðmörk, við Strípsveg, nærri Skógarhlíð. Mikið var gróðursett í Finnmörk á níunda áratugnum en síðustu ár hefur starfið þar legið nokkuð í láginni. Þar til nú.

Síðasta haust voru stígar á svæðinu skipulagðir og talsvert gróðursett af nýjum trjáplöntum – finnskum birki-, greni-, og furutrjám. Til stendur að leggja göngustíga og útbúa áningarstað í Finnmörk næsta sumar.

Verkið er unnið með fulltingi finnska sendiráðsins og er hluti af framlagi Finna á Íslandi til friðlandsins í Heiðmörk. Finnska listakonan Anu Miettinen hefur komið til landsins í tvígang til að vinna að endurbótum á Finnmörk, sem eru hluti af listaverki hennar „Circulation“.

Miettinen hefur unnið umhverfislistaverk meðal annars á eyjunni Vartiosaari. Eyjan er skógi vaxinn og með fjölbreytta náttúru en um leið örstutt frá miðborg höfuðborgarinnar Helsinki.

Trjágróður, lyng, mosi og grjót í Finnmörk. Neðst á myndinni má sjá jarðvegsrof sem ekki hefur náð að gróa vegna mikillar frostlyftingar. Mynd: Anu Miettinen

Anu Miettinen.