Tré mánaðarins

TRÉ NÓVEMBERMÁNAÐAR – EVRÓPULERKI

Dómnefnd Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur valið evrópulerki (Larix
decidua) í garði við Brúnaveg 8 sem Tré nóvembermánaðar. Ábending um þetta tré barst frá Hólmfríði Sigurðardóttur og kunnum við henni bestu þakkir
fyrir.

Aðalbyggingin Brúnavegi 8 á sér merkilega sögu því það hús stóð
í upphafi við Austurvöll, reist 1847 af Hallgrími Scheving
yfirkennara í Latínuskólanum.  Þar var fyrsta pósthús landsins og
húsið síðar nefnt Gamla pósthúsið þegar nýtt tók til starfa
litlu norðar við Pósthússtræti.  1928 þurfti að rýma lóðina
austan við Austurvöll og reis þar Hótel Borg. Gamla pósthúsið var
tekið sundur og endurreist við Reykjavíkurveg 1 í Skerjafirði.
Flutningasögu hússins lauk ekki í Skerjafirðinum því 1941
krafðist breska setuliðið þess að húsið yrði aftur tekið sundur
vegna flugbrautarlagningar  og var það flutt þangað sem það stendur
nú í Laugarásnum. Hallur L. Hallson tannlæknir og kona hans Amalía H.
Skúladóttir bjuggu þá í Gamla pósthúsinu ásamt börnum sínum.
Núverandi eigendur eru Ragnhildur Þórarinsdóttir og Bergur
Benediktsson, en þau  eru mikið áhugafólk um endurgerð gamalla húsa.
Í þeirra tíð hefur húsið verið fært sem næst upprunalegu horfi og er þar nú rekið gistiheimili.

Þegar Bretar fluttu Gamla pósthúsið í Laugarásinn í Seinni
heimsstyrjöldinni var þar stórgrýtt mjög og þurfti að sprengja
klappir og grjót áður en mold var keyrð að og  ræktun hófst á hinni
stóru lóð við húsið.  Hallur var ekki aðeins annálaður tannlæknir
heldur líka mikill ræktunarmaður og kom lóðinni fljótlega í það
horf að aðdáun vakti og fékk garðurinn til dæmis verðlaun
Fegrunarnefndar Reykjavíkur 1951. Þau Hallur og Amalía þóttu
höfðingjar heim að sækja og var þar mjög gestkvæmt. Málverk eftir
Jóhannes S. Kjarval þöktu  veggi, en þeir Hallur voru ævivinir, höfðu
meðal annars verið  saman á skútu á yngri árum.  Eftir því sem
næst verður komist gróðursetti Hallur ,,lævirkjatréð” eða
evrópulerkið árið 1943. Fleiri vöxtuleg lerkitré eru í garðinum og
einnig hátt sitkagreni, en umrætt Tré mánaðarins ber af í
vaxtarlagi og þokka. Það mælist 13 metra hátt og ummál stofns í 1,3
m. hæð er 2,06 m. Þvermál krónu um 11 metrar. Fuglar sóttu snemma í að
verpa í lerkinu og fyrir nokkrum árum var þarna náttstaður stórs
hóps af störum.

Lerki er greint í um 10 tegundir og er útbreiðslusvæði þess um alla
Evrópu, norðurhluta Asíu og Ameríku. Hér á landi er rússalerkið
eitt mest ræktaða skógartréð og þrífst það sem kunnugt er vel í
innsveitum norðanlands og austan.  Evrópulerkið þrífst aftur betur sunnanlands.
Heimkynni þess  er í Alpafjöllum, Tatrafjöllum og Karpatafjöllum, en það hefur verið gróðursett á láglendi víða um norðan- og vestanverða Evrópu í um
250 ár.

Evrópulerki var meðal fyrstu tegunda sem reyndar voru hérlendis í
upphafi 20. aldar og má finna aldargömul tré á nokkrum stöðum.
Þekktast er sennilega evrópulerkið í garðinum Skrúð við
Dýrafjörð en það hæsta er í Mörkinni á Hallormsstað, rétt
rúmlega 20 m hátt. Margir þekkja líka hið svipmikla evrópulerki í gamla
kirkjugarðinum við Suðurgötu.

Evrópulerki er í heimkynnum sínum stórvaxið og beinvaxið skógartré.
Það nær oft 30-40 metra hæð og verður 6-700 ára gamalt.
Það þykir fallegt í sínum bjartgræna sumarskrúða og ekki síður í
skærgulum haustlitum.  Lerkið fellir barr sitt á haustin og er það
nær einstakt með barrtré. Gömul nöfn á lerki er lævirkjatré og barrfellir.
Viðurinn er eftirsóttur til margskonar nota. Það  hefur náttúrulega
viðarvörn og er til dæmis mikið notað til smíða utan dyra.

Evrópulerki er harðgert og þolir bæði rysjótt veður að vetrarlagi
og svöl sumur, en suðlægur uppruni þess veldur því að það vex
nokkuð lengi frameftir hausti á okkar breiddargráðu. Afleiðingin er
sú að það verður oft fyrir haustkali hér á landi og verður fyrir
vikið kræklótt. En það sem er kræklótt í augum sumra er fallegur
skúlptúr í augum annarra og gömul evrópulerkitré verða
gjarnan mjög svipmikil með digran stofn, hrjúfan börk og mikla krónu.
Það hentar vel í stóra garða og útivistarsvæði, einnig má klippa
það og nota í limgerði. Með kvæmavali og kynbótum sem Skógrækt ríkisins hefur staðið að verður evrópulerkið  verðmætt skógartré hér á landi í framtíðinni.

Innflutningur á evrópulerkifræi til skógræktar hófst árið 1954 og
eru til skógarlundir og allmörg tré í görðum víða um land allt frá
því laust fyrir 1960. Á Íslandi eru einnig til örfá eldri
evrópulerkitré, þ.e. fyrir utan þau allra elstu, eða frá árunum
milli 1915 og 1960 og er  tréð við Gamla pósthúsið eitt þeirra.

Evrópulerkið við Brúnaveg 8 er varla komið af barnsaldri ef miðað er
við aldur þess við góð skilyrði sunnar í álfunni. Það mun halda
áfram að vaxa og dafna næstu 500 árin og ná mikilli hæð og umfangi,
ef allt fer að óskum og natnin og umhirðan í næsta nágrenni verður
jafn góð og undanfarin 60 ár.