Tré mánaðarins

Tré mars mánaðar

Tré marsmánaðar er alaskaösp (Populus trichocarpa) í garði við Langholtsveg 158. Þórður Vigfússon byggði húsið 1954, en tréð var gróðursett um 1960. Núverandi eigendur  eru Helga Jónsdóttir, Gunnar Lúðvíksson, Linda Mjöll Gunnarsdóttir og Sveinbjörn Jóhannesson.

Alaskaöspin mælist um 18,20 metrar á hæð, ummál í 1,30 metra hæð er 2,78 m. og þvermál krónu nálægt 14 metrum. Þetta er því mjög stórt, greinamikið og bolmikið tré sem setur mikinn svip á næsta nágrenni og götumyndina.  Það varð greinilega fyrir áfalli í vorhretinu 9. apríl 1963 þegar miklar skemmdir urðu á trjám um sunnanvert landið.  Þá höfðu verið hlýindi undangengnar vikur og tré tekin að laufgast þegar skall á norðanstórviðri um land allt eins og hendi væri veifað. Má sem dæmi nefna að í Reykjavík hrapaði hitinn úr +6,0 klukkan 15 í  -6,4 klukkan  21 um kvöldið. Fylgdi þessu áhlaupi kuldakafli fram eftir mánuðinum,  síðan kalt vor og sumar í kaldara lagi.

Miklar skemmdir urðu á trjám um sunnanvert landið, eins og áður segir, og urðu  sitkagreni og alaskaösp sérstaklega illa úti. Þessar trjátegundir voru sem kunnugt er fluttar inn frá Alaska, alaskaöspin kom öll frá Kenaiskaga sem er nokkuð inni í landi og var það talin ástæða þess að öspin þoldi ekki vorhretið 1963. Var því ákveðið strax sama ár að safna græðlingum af ösp sunnar í Alaska þar sem vetur eru mildari en á Kenaiskaganum og sumarið fremur kalt. Þeim trjám ætti síður að vera hætt við skemmdum í vorhretum í framtíðinni. Undanfarna áratugi hefur nær eingöngu verið fjölgað trjám úr þessum leiðangri og kannast fólk við nöfn á þeim eins og Salka, Keisari, Pinni og Haukur.

Ekkert tré  hér á landi vex jafn mikið og alaskaöspin. Tré sem gróðursett var 1954 á Hallormsstað nálgast nú 25 metra á hæð og mun vera það hæsta á landinu. Litlu lægri eru tré í Múlakoti í Fljótshlíð, fyrstu alaskaaspirnar sem gróðursett voru á landinu árið 1944. Þau voru reyndar orðin 11 metra há þegar vorhretið skall á 1963 og kól alveg niður, en náðu sér aftur á strik með áðurnefndum árangri.
Um 35 tegundir aspa vaxa á norðurhveli jarðar. Alaskaöspin er þeirra stærst, nær allt að 60 metra hæð við bestu skilyrði í heimkynnum sínum á vesturströnd Norður-Ameríku. Fellur oft innan við 100 ára en dæmi eru þó um 200 ára aspir. Viður asparinnar er ljósbrúnn, mjúkur og frekar léttur. Þykir afbragðsgóður til pappírsgerðar og einnig notaður í lyfjagerð og  margskonar smíði, í eldspýtur ofl.

Hér á landi telst alaskaöspin ein helsta tegundin í skógrækt. Hafa miklar tilraunir verið gerðar með ræktun hennar við mismunandi skilyrði og er nú hægt að velja það kvæmi sem best dugar í hverjum landshluta, svo dæmi sé tekið. Öspin hentar mjög vel stök á opnum svæðum þar sem hún hefur rúmt um sig og á það einkum við um hin breiðvaxnari kvæmi hennar eins og Keisara. Gömlu kvæmin frá Kenaiskaga eru mörg hver líka stórgreinótt og fyrirferðarmikil og geta því verið yfirþyrmandi  sunnan undir húsi í litlum garði. Annars staðar, eins og við Langholtsveg 158 og Sigtún 29, sóma þau sér vel.  Þegar garðeigandi kaupir sér ösp getur hann valið þá fyrirferð og vaxtarlag sem hentar best í hans garði. Þarf þá sérstaklega að huga að skuggamyndun á sumrin og gæta þess að gróðursetja tréð ekki of nálægt mannvirkjum. Við gott atlæti vex öspin vel og verður glæsilegt og ilmandi tré sem gleður hjarta ræktunarmannsins. Stórvaxnar aspir eru líka vinsælar meðal fugla og ekki dregur það úr verðmæti þeirra.

Í seinni tíð hafa  æ oftar heyrst hryllingssögur um aspir í görðum sem verða ,,óðar“, ,,leggjast í víking“, hefja ,,neðanjarðarstarfsemi“ osfrv. með skelfilegum afleiðingum.  Allt þykir okkur þetta orðum aukið. Alaskaöspin er stórt og kröftugt tré, sem þarf sitt vaxtarrými ofan jarðar og neðan, eins og annar trjágróður.  Við ræktun hennar þarf að sjálfsögðu að taka eðlilegt tilliti til nágranna og hafa nýtingu lóðarinnar í huga. Rétt valið tré á réttum stað er  ræktunarmanninum og  lóðareigandanum til  sóma.

Á meðfylgjandi myndum má sjá Helgu Jónsdóttur ásamt tíkinni Freyju undir öspinni miklu.
Þá er einnig nærmynd af stofni trésins.

 

sp_langholtsvegi_158_-2-