Tré mánaðarins

Tré maímánaðar – Birki

Dómnefnd Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur valið Tré mánaðarins í maí  og er það birki (Betula pubescens) í garði við Háteigsveg 36. Ábending um þetta tré barst frá Einari Ó. Þorleifssyni og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.  Húsið  byggðu þau Halldór Kr. Þorsteinsson og Ragnhildur Pétursdóttir árið 1920 og hét það   upphaflega  Háteigur.  Að sögn eiganda hússins, Guðnýjar Ó. Halldórsdóttur, var birkið gróðursett milli 1930-40. Birkitrén voru reyndar fleiri  framan við húsið í upphafi en fljótlega tók umrætt tré forystuna hvað varðar vöxt og þrótt og voru hin trén þá felld og þetta eina sem eftir stendur  fengið að njóta sín svo um munar. Gömul svipmikil tré  hafa lengi verið kallaðar ,,eikur“ hér á landi  og þykja til mikillar prýði.  Hæðin er 6,7 metrar, ummál stofns í 0,6 m.  hæð frá jörðu er 1,55 m. og þvermál krónu um 8,4 m.

Birkið við Háteigsveg 36 er greinilega komið á efri árin og hætt að vaxa svo nokkru nemur. Guðný eigandi trésins segist fagna á hverju vori þegar tréð byrjar að laufgast og telur ekki seinna vænna að heiðra það sem Tré mánaðarins. Það er marggreinótt og svipmikið og þakið skófum langt upp eftir stofni. Það hefur ekkert verið klippt til og ekki fengi sérstaka umhirðu að öðru leyti.Birki er algengasta trjátegund landsins, sú mest gróðursetta og sú eina sem myndaði hér samfellda skóga. Talið er að birkið hafi lifað ísöldina af og síðan breiðst út þegar jöklar tóku að hopa fyrir um 10 þúsund árum. Við landnám munu 25% landsins hafa verið þakin skógi, en nú aðeins rúmlega 1%. Ástæðurnar fyrir hinni miklu skógeyðingu eru aðallega búskaparhættir forfeðranna. Gengið var hart að skógunum með skógarhöggi og beit alveg frá landnámi og má segja að víða hafi þessari ,,mjólkurkú“ landsmanna verið miskunnarlaust slátrað, að hluta til vegna vanþekkingar, að hluta til úr hreinni neyð. Afleiðingarnar urðu sem kunnugt er berangur, uppblástur, landeyðing og aðrar hörmungar í hundruð ára. Sem betur fer sér nú fyrir endann á þessum hernaði gegn skógunum, en mikið vantar þó enn á almennan skilning og vilja til þess að skógvæða landið og erum við þar eftirbátar nágranna okkar í Evrópu.Fjalldrapi er önnur birkitegund sem vex hér á landi, hann er smávaxinn runni með lítil nær kringlótt blöð. Blendingur birkis og fjalldrapa kallast skógviðarbróðir. Um 40 tegundir eru í bjarkarættinni og vaxa þær allar í tempraða beltinu og norður í kuldabeltið. Af erlendum tegundum eru það helst steinbjörk og hengibjörk sem eitthvað hafa verið ræktaðar að ráði hérlendis. Birkið hefur alla tíð verið notað til margskonar smíða, unnið í viðarborð, notað í spónaplötur, í pappírsgerð, listasmíði og fleira. Það þykir góður eldiviður og fer sú notkun vaxandi hér á landi. Áður fyrr var birkið notað til smíða, sérstaklega meðan rafta var enn að hafa, það var líka nýtt sem eldiviður og einnig gerðu menn til kola, þe. notuðu birkið til að framleiða viðarkol, sem aftur nýttust við járngerð og járnvinnslu. Geysimikið af birki þurfti til framleiðslu á þessum viðarkolum og er áætlað að skógurinn sem þurfti að fella á 1.000 árum til viðarkolagerðar hafi verið um 10.000 ferkílómetrar að stærð eða rúmur þriðjungur af flatarmáli alls skóglendis við landnám.Lauf birkisins hefur lengi verið notað í te. Vökva er tappað af trjánum á vorin og gert úr honum síróp, bjór, vín og aðrir drykkir. Þessi menning er þó ekki langt á veg komin hér á landi ennþá, en Skógrækt ríkisins og Héraðsskógar hafa þó gert tilraunir með að brugga úr birkisafa og gefist vel.

Um það bil 80% birkitrjáa  landsins eru undir tveimur metrum  á hæð, en hæsta birki landsins er tæpir 15 metrar. Að útliti og vaxtarlagi eru trén margbreytileg, beinvaxin eða kræklótt, einstofna eða margstofna, með gráleitan, búnleitan eða ljósan börk sem flagnar í þverspæni.  Það er því úr mörgu að velja og mikil blöndun í gangi í náttúrunni. Undanfarin ár hefur verið unnið að kynbótum og er almennt stefnt að beinvöxnum trjám með ljósum berki.  Bæði hafa verið valin úrvalstré úr Bæjarstaðaskógi og eins ræktuð tré undir heitinu Embla, en forfeður Emblunnar eru stásstré í Reykjavík og nágrenni. Ekki er vitað til að birkið  við Háteigsveg 36 hafi verið kynbætt á einn eða neinn hátt,  það var líklega keypt í Fagrahvammi í Hveragerði á sínum tíma og stendur fyllilega fyrir sínu.