Tré mánaðarins

Tré júnímánaðar

Húsið var byggt árið 1929 og talið að gullregnið hafi verið gróðursett á 5. áratugnum. Eigendur eru Halla Rannveig Halldórsdóttir og Pálmi Haraldsson.

Undanfarin sumur voru hlý og vorið 2008 er sérstaklega sólríkt og hagstætt öllum gróðri. Þess má sjá merki um alla borgina því trjágróður er í miklum vexti og tré og runnar blómstra sem aldrei fyrr.

Gullregn (Laburnum) hefur lengi verið ræktað hér á landi og þykir hið glæsilegasta garðtré með sínum ótal gulu blómklösum eða ,,gullfossum”, sem áberandi eru þessa dagana. Gullregnið við Sólvallagötu þótti dómnefnd bera af mörgum öðrum trjám sem tilnefnd voru til Trés mánaðarins að þessu sinni.

Með vali sínu vill dómnefndin ekki aðeins vekja athygli á gimsteininum við Sólvallagötuna heldur hvetja til aukinnar ræktunar á gullregni í görðum og ekki síst opnum svæðum borgarinnar.

Hæð trésins samkvæmt nýjustu mælingum er 7,60 metrar á hæð og 188 cm í ummál við jörð og er það margstofna eins og algengt er hjá gullregni. Sérstaka athygli vekur hin mikla trjákróna sem breiðust er 11,20 metrar í þvermál.

Skógræktarfélag Reykjavíkur þakkar þeim fjölmörgu sem komu með ábendingu um Tré mánaðarins og óskar eftir fleiri tilnefningum fyrir júlímánuð. Netfangið er [email protected]

Frekari upplýsingar:
Kristján Bjarnason
Skógræktarfélagi Reykjavíkur
GSM 856 0058
gull08Dómnefnd á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur valið tré júnímánaðar í Reykjavík og er það gullregn í garði við Sólvallagötu 4