Tré mánaðarins

Tré júlímánaðar – Silfurreynir

Tré júlímánaðar er silfurreynir  (Sorbus intermedia) í garði við Skólavörðustíg 4ab. Húsið  var byggt árið 1901, en þar var lengi Hannyrðaverslunin Baldursbrá sem margir eldri borgarar kannast við. Núverandi eigendur eru Hannes Lárusson og Kristín Magnúsdóttir.

Eyjólfur Eyfells listmálari og Ingibjörg kona hans gróðursettu silfurreyninn um 1920, en þau eignuðust húsið 1919 og bjuggu í því til dauðadags. Hefur tréð vaxið og dafnað vel síðan og  mælist nú 11 metra  hátt  og ummál  1,52 m  í  1,20 m hæð. Tréð var gróðursett býsna nærri húsinu, það vex upp með gafli þess  og er nú á seinni árum farið að fikra sig  inn yfir þakið. Þarna er um að ræða skemmtilegt sambýli, allt að því samvöxt   trés og húss. Krónan  er umfangsmikil og setur það mikinn svip á garðinn og nágrenni hans.

Schierbeck landlæknir var  mikill áhrifamaður og frumkvöðull í garðyrkju og flutti silfurreyni fyrst til landsins frá Danmörku á nýlendutímanum og er talið að elsta tré borgarinnar sé silfurreynirinn í Aðalstræti  gróðursettur 1884. Það tré er reyndar nokkru lægra en silfurreynirinn við Skólavörðustíg en  töluvert bolmeira. Silfurreynir er talinn þola loftmengun í borgum betur en flestar aðrar trjátegundir og því vinsæll sem götutré erlendis. Á fyrrihluta 20. aldar var hann mikið gróðursettur í  Reykjavík og njótum við þess nú, þessa arfs frá Schierbeck, ef svo má að orði komast. Hann getur orðið 200 ára gamall og á tréð við Skólavörðustíg 4ab samkvæmt því eftir að lifa og dafna vel  næstu hundrað árin.

Ábending um silfurreyninn kom frá Ásu Hauksdóttur sem býr ásamt fjölskyldu sinn í  næsta nágrenni, hún lýsir honum sem óvenju glæsilegum  í umsögn sinni og hann  ,,endurvarpi lífi og fegurð á nærumhverfi sitt allan ársins hring mismunandi búningum”.