Tré mánaðarins

TRÉ DESEMBERMÁNAÐAR

Tré mánaðarins í desember er stafafura (Pinus contorta) sem vex við Hraunslóð skammt sunnan við Silungapoll í Heiðmörk.  Tréð vex í jaðri stafafurulundar og er 10,7 metrar á hæð.  Ummál í 1,3 m hæð frá jörðu er 84 sm.

Stafafuran hefur mikið verið höggvin sem jólatré á seinni árum og nýtur hún vaxandi vinsælda landsmanna og er orðin algengasta innlenda jólatréð. Kemur þar ekki aðeins til hversu mikið og vaxandi framboð er af henni, heldur líka hitt að hún er fallegt, ilmandi og sérstaklega barrheldið tré. Stafafuran mun hér eftir sem hingað til vera mikilvægur þáttur í jólahaldi Íslendinga og ekki aðeins það heldur  er hún ein af meginstoðum hinnar vaxandi skógarauðlindar landsmanna. Tré desembermánaðar skammt sunnan við Silungapoll í Heiðmörk er gott dæmi um innflutta trjátegund sem hefur sannað gildi sitt og verðmæti og þrífst einstaklega vel í nýjum heimkynnum.

Stafafuran er amerísk tegund að uppruna, vex með Kyrrahafsströndinni frá Alaska og alveg niður til Mexíkó og einnig innar á meginlandinu. Henni er skipt í fjórar deilitegundir. Þær útbreiddustu eru strandfura og raftafura. Strandfuran er lágvaxnari og oft kræklótt og snúin líkt og latneska nafnið segir til um. Verður hún ekki nema miðlungshátt tré, en hún þolir  vel vind og saltálag við ströndina og gerir litlar
kröfur til jarðvegs. Raftafuran vex innar í landinu og verður mun hærri og beinvaxnari.
Til forna var trjábolur raftafurunnar  notaður sem meginstoð í tjöldum og kofum frumbyggja. Brumin voru tuggin til að lina eymsli í hálsi og hluti stofnsins næst berkinum notaður  í matargerð. Stafafuran er mikilvæg í landgræðsluskógrækt og  hindrar rof á viðkvæmum svæðum. Hún er líka mikils virði í timburiðnaði, til smíða og  pappírsgerðar og  getur orðið allt að 600 ára gömul vestan hafs.

Fyrstu stafafururnar hér á landi voru gróðursettar árið 1940 á Hallormsstað. Þær hafa dafnað vel og náð 20 metra hæð. Upp úr 1950 hófst söfnun á stafafurufræi við bæinn Skagway í Alaska þar sem strand- og raftafuran mætast og blandast. Þær stafafurur sem ættaðar eru frá Skagway hafa reynst best víða um land  og hefur sá blendingur mest verið notaður hér á landi. Hún er nú í fjórða sæti sem mest gróðursetta tréð, um 600 þúsund eru gróðursett árlega, þar af um 100 þúsund á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk og Esju.

Heiðmörk var friðuð fyrir beit og opnuð almenningi árið 1950. Síðan þá hefur látlaust verið unnið að skógrækt, lagningu göngustíga, gerð áningarstaða  og annarrar aðstöðu fyrir gesti og gangandi. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur frá upphafi haft umsjón
með öllum framkvæmdum og verndun Heiðmerkur. Algengustu trjátegundir  eru birki, sitkagreni og stafafura. Fyrstu stafafururnar voru gróðursettar árið 1956 og er óhætt að segja að þær hafi dafnað vel í þessu upplandi Reykjavíkur allar götur síðan. Sérstaklega er áberandi hvað stafafurunni tekst vel að vaxa í þurrum lyngmóum og melum þar sem sitkagrenið nær sér til dæmis ekki á strik hjálparlaust. Þá er hún farin að fjölga sér mikið á undanförnum árum og má nefna sem dæmi um hinn mikla útbreiðslukraft að út frá stafafurulundinum við Silungapoll hafa þær dreift sér í allt að 60 metra fjarlægð inn á örsnautt land sem aðeins er vaxið grámosa og krækilyngi.