Snjó hefur tekið upp í Heiðmörk undanfarna daga og ekki hægt að troða frekari brautir eins og staðan er. Svo framarlega sem það gerir ekki almennilegt páskahret, hefur vélsleðanum verið lagt að sinni. Mögulega er þó enn hægt að finna einstaka skafla fyrir utanbrautarskíði. Við hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur þökkum fyrir ánægjulegan gönguskíðavetur.
Mikil umferð gönguskíðafólks hefur verið í Heiðmörk frá því að í byrjun febrúar, þegar það snjóaði loksins almennilega í Heiðmörk. Laugardaginn 12. febrúar var gengist fyrir skíðagöngudegi fyrir alla fjölskylduna við góðar undirtektir, eins og til dæmis mátti sjá í kvöldfréttum Rúv. Spor hafa verið troðin flesta daga síðan þá. Oft hafa mörg hundruð gönguskíðaiðkendur lagt leið sína í Heiðmörk á hverjum degi og mjög gaman hvað margt fólk hefur notið útivistar í skóglendinu að vetrarlagi. Enda er alltaf skjól í skóginum.
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur staðið að lagningu gönguskíðasporsins ásamt Skíðagöngufélaginu Ull. Stefnt er að því að halda áfram að bæta innviði fyrir gönguskíðaiðkun, líkt og aðra útivist í Heiðmörk. Nú í vetur var tekin í notkun ný tengibraut sem tengir Hjallahringinn við bílastæðið við Elliðavatnsbæinn. Þetta bæði auðveldar aðgengi og eykur öryggi út frá vatnsverndarsjónarmiðum. Æskilegt væri að að ljúka við leið vestan megin við vatnsverndagriðinguna á svæðinu þannig að hringleið myndist frá Elliðavatnsbænum. Fólk sem er að koma hvort úr sinni áttinni þarf þá ekki að mætast í sporinu.