Áhugi á sveppatínslu hefur aukist mjög á undanförnum árum. Laugardaginn 17. september síðastliðinn efndi félagið til sveppatínslu í Vífilsstaðahlíð í samstarfi við Norska sendiráðið. Aud Lise Norheim sendiherra Noregs á Íslandi og eiginmaður hennar Ketil Jensehaugen eru fróð um sveppi og miðluðu af reynslu sinni til gesta. Hist var við Jafnréttislund þaðan sem gengið var út í skóg að tína sveppi. Þegar komið var til baka voru sveppirnir grendir til tegunda og lagt mat á hvort þeir hentuðu í einhverja af þeim ljúffengu sveppauppskriftum sem sendirherrann deildi með gestum.
Veðrið var yndislegt og gestir nutu sannarlega útiverunnar þó ekki hafi fundist mikið að sveppum, enda haustið farið að banka upp á. Þátttakendur voru fróðari eftir daginn og fóru heim með uppskriftir Aud Lise sendiherra í farteskinu.
Hópurinn hittist við Jafnréttislund sem er landnemaspilda Félags kvenna í atvinnurekstri. Að sjálfsögðu var boðið upp á ketilkaffi & kakó.
Aud Lise Norheim sendiherra Noregs á Íslandi er fróð um sveppi. Auk þess að greina sveppi deildi hún með gestum uppáhalds sveppauppskriftunum sínum.
Nokkuð var farið að hausta svo segja má að dagurinn hafi verið einskonar sveppalokahátíð. Hér greinir Aud Lise sveppi til tegunda.
Aud Lise sendiherra og Ketil eiginmaður hennar ásamt verðlaunahafanum sem fann stærsta sveppinn við Jafnréttislund.
Þó berserkjasveppirnir séu eitraðir og því alls ekki matsveppir eru þeir sannarlega fallegir.
Þó nokkuð var tínt af hrútaberjum en hlaup úr þeim er einstaklega rautt og fallegt.