Sögudagatal

Suðræn tröllatré í Heiðmörk

Í lok árs 1950 barst borgarstjóra Reykjavíkur nokkuð óvenjulegt erindi frá Brasilíu. Kaj Svanholm, verksmiðjurekandi í Rio de Janeiro, vildi gefa Íslendingum um 5.000 fræ eucalyptus-trjáa, sem stundum eru nefnd tröllatré á Íslensku.

Eucalyptus er stór ættkvísl trjáa og runna sem er algengust í Ástralíu. Trén eru hraðvaxta og geta orðið mjög há – jafnvel um 100 metrar. Þessir eiginleikar gera það að verkum að tegundin eru talsvert notuð til að framleiða iðnaðartimbur, meðal annars í  Afríku og Suður-Ameríku. Myndin hér að ofan sýnir einmitt tröllatré í Sao Paulo í Brasilíu. Aftur á móti eru eucalyptustré viðkvæm fyrir frosti.

Borgarstjóri Reykjavíkur, Gunnar Thoroddsen, brást við erindi brasilíska verksmiðjueigandans með því að leita til Skógræktarfélags Reykjavíkur og spyrja ráða. Framkvæmdastjóri félagsins benti á að það væri heldur ólíklegt að þessi tré, sem þrífast svo vel í hitabeltinu, myndu ná sér á strik á Íslandi enda aðstæður allar talsvert erfiðari. En það mætti svosem reyna. Aftur á móti vildi skógræktarfólk gjarna fá fræ fleiri trjátegunda svo kanna mætti hvaða tegundir þrífast best á Íslandi. Því skrifar framkvæmastjórinn í svarbréfi sínu til Gunnars:

“Hinsvegar væri æskilegt að benda hr. Svanholm á, að sunnar í Suður-Ameríku vaxa ýmsar trjátegundir við svipuð veðurskilyrði og hér á landi. Væri mikill fengur að fá fræ a þeim tegundum til reynslu hér.”

Fylgiskjal með fræsendingunni frá Rio de Janeiro.

Svarbréf Skógræktarfélags Reykjavíkur til borgarstjóra Reykjavíkur.

Kaj Svanholm var af auðugum, dönskum ættum. Hann hafði komið til Íslands árið 1913 og dvalið í tvo eða þrjú ár, og svo aftur 1950. Þá mun hann hafa heillast af þeim miklu framförum sem orðið höfðu á skömmum tíma. Vinur hans, stórkaupmaðurinn Einar Guðmundsson, segir að hann hafi allt viljað vinna til að auka áhuga á Íslandi í Brasilíu og viðskipti milli landanna.

Kannski má líta á sendinguna sem dæmi um þann mikla áhuga sem var á skógræktarmálum á Íslandi á þessum tíma – áhuga sem náði alla leið til Brasilíu.

Af tröllatrjáfræunum er það að segja að þau bárust til Reykjavíkur með flugpósti sumarið 1951. Með fylgdu nákvæmar leiðbeiningar um hvernig bæri að gróðursetja fræin og hugsa um trén sem upp af þeim myndu vaxa. Engum sögum fer þó af því hvernig til tókst með gróðursetninguna.

 

Þessi umfjöllun er hluti af afmælisdagatali að tilefni þess að 70 ár eru frá opnun Heiðmerkur. Hægt er að fylgjast með afmælisdagatalinu á Instagram og Facebooksíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.