Nýlega réðst Skógræktarfélag Reykjavíkur í viðamiklar framkvæmdir í þeim hluta Heiðmerkur sem tilheyrir Garðabæ.
Haustið 2013 var skrifað undir samstarfssamning milli félagsins og Garðabæjar um rekstur svæðisins og eru framkvæmdirnar nú afrakstur þess samnings.
Sævar Hreiðarsson skógarvörður við bílastæðið í Hjalladal sem búið er að lagfæra þannig að það þjóni betur hinum fjölmörgu gestum Heiðmerkur.
Bílastæðið við Hjallaflatir sem var farið að láta á sjá, hefur verið bætt til muna, búið er að bera í það og þjappa. Nú getur það þjónað betur þeim fjölmörgu gestum sem sækja Hjalladalinn heim. Þá hefur grjóthnullungum verið komið fyrir á stæðinu, annars vegar til að afmarka bílastæði og hins vegar til að koma í veg fyrir spólakstur ungmenna.
Einnig voru gerð þrjú lítil bílastæði á hálsinum milli Hjalladals og Hlíðarvegs. Með því er komið til móts við þarfir útivistarfólks sem leggur gjarnan bílum sínum í vegkantinum til að bregða sér í gönguferð eða njóta glæsilegs útsýnisins sem þarna blasir við. Eitt bílastæði í viðbót var svo gert í námunda við hinn vinsæla göngustíg að Búrfellsgjá en þar hefur einnig verið algengt að ökumenn leggi bílum í vegkantinum. Nú getur útivistarfólk því lagt bílum sínum í góð og örugg stæði.
Jafnframt hefur viðhaldi eldri bílastæða við Vífilsstaðahlíð verið sinnt, meðal annars var sverum trjábolum komið fyrir á jöðrum þeirra til að koma í veg fyrir að bílar renni út af eða menn keyri inn á svæði þar sem það er ekki leyfilegt. Aðstaða fyrir útvistarfólk hefur einnig verið bætt með viðhaldi á upplýsingaskiltum, merkingum, borðum og bekkjum auk þess sem starfsmenn sinna reglulega eftirliti og hreinsun áningarstaða.
Síðasta vetur grisjuðu starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur 3 ha af skóglendi fyrir ofan stóra bílastæðið í Hjalladal. Til stendur að halda áfram grisjun á fleiri reitum í vetur.
Að síðustu réðst Skógræktarfélag Reykjavíkur í heilmiklar vegabætur á línuveginum í Vífilsstaðahlíð og borið á hann á um 1,5 km kafla. Vegurinn var farinn að láta mjög á sjá og var oft ekki fær nema torfærutækjum. Nú er hann mun greiðfærari sem auðveldar mjög starfsmönnum Skógræktarfélags Reykjavíkur og landnemum að sinna umhirðu og annarri vinnu í Vífilsstaðahlíð og Grunnuvötnum. Garðabær stóð fyrir miklum endurbótum á þeim hluta Heiðmerkurvegar sem liggur í Garðabæ enda var vegurinn orðinn mjög illa farinn og stóð af honum slysahætta, sérstaklega fyrir minni bíla.
Stórum hnullungum hefur verið komið fyrir á bílastæðinu til að koma í veg fyrir spólakstur.
Þrjú bílastæði hafa verið gerð á hálsinum milli Hjalladals og Hlíðarvegs en þar er fallegt útsýni yfir svæðið.
Skógræktarfélag Reykjavíkur réðst í miklar endurbætur á línuveginum í Vífilsstaðahlíð sem mun auðvelda til muna alla vinnu á svæðinu.
Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur hafa grisjað um 3 ha af skóglendi fyrir ofan stóra bílastæðið í Hjalladal og stendur til að grisja meira í vetur.
Bílastæði hefur verið gert í námunda við hinn vinsæla göngustíg að Búrfellsgjá.