Trjátegund mánaðarins

Stafafura (Pinus contorta) – „íslenska jólatréð“

Senn líður að því að margir landsmenn skreyti stofur sínar með jólatrjám. Íslendingar sem velja á annað borð lifandi jólatré í stofur sínar, kjósa í vaxandi mæli að nota furutegund eina, stafafuru (Pinus contorta), sem jólatré.

 

Stafafura er upprunnin í vestanverðri Norður-Ameríku. Þar vex hún á gríðarstóru útbreiðslusvæði, frá fjöruborði og hátt upp til fjalla, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan. Í stofum landsmanna hefur hún reynst vel sem jólatré; hún þykir barrheldin, fallega græn og ilmar vel. Fyrir því nýtur hún sívaxandi vinsælda sem „íslenska jólatréð“ – sem annar valkostur við kínversk gervijólatré eða danska nordmannsþini – með mun minna kolefnisfótspor.

Náttúrlegt útbreiðslusvæði stafafuru í vestanverðri Norður-Ameríku. Litir á kortinu sýna deilitegundir stafafuru. Hérlendis eru að mestu notuð kvæmi frá norðanverðu útbreiðslusvæðinu, af deilitegundunum P. contorta var. contorta (strandfuru; rautt) og P. contorta var. latifolia (grænt).

Tveir könglar, tíndir af sitt hvoru stafafurutrénu haustið 2022. Köngullinn á hægri hönd opnaðist strax og hann þornaði og losaði fræin. Sá til vinstri er tíndur af tré sem aðlagast hefur tíðum skógareldum. Hann opnast ekki fyrr en hann hefur fengið snögga hitameðhöndlun.

Skömmu eftir að farið var að gróðursetja stafafuru hérlendis að einhverju marki (um 1960) hlaut tegundin íslenskt nafn sitt, en „stafirnir“ sem furan dregur íslenska nafn sitt af, er samheiti yfir stöng eða bjálka, sbr. „stafkirkja“. Hún er meðal þeirra fimm trjátegunda sem mest er gróðursett af árlega á Íslandi og fer gróðursetning hennar vaxandi með hverju árinu, í takt við aukna árlega gróðursetningu í skógrækt.

 

Stafafura getur orðið stórvaxið tré. Hæsta stafafura sem fundist hefur í heiminum vex í Idahoríki í vestanverðum Bandaríkjunum og hefur þar náð ríflega 47 metra hæð. Stafafura er meðal þeirra tíu trjátegunda sem hérlendis hafa náð 20 metra hæð. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að tegundinni vaxi ásmegin í þeim efnum á komandi áratugum og að hún nái a.m.k. 30 metra hæð.

 

Fyrir utan að vera vinsælt jólatré, hefur tegundin ýmsa kosti sem henta sérstaklega vel í landgræðslu og skógrækt á Íslandi og um leið til kolefnisbindingar. Hún er nægjusöm og vex vel á jarðvegi sem snauður er af nitri. Alkunna er að af nitursnauðum jarðvegi er mikið framboð á Íslandi.  Stafafura er að miklu leyti sjálfri sér nóg um nitur og aðra næringu enda í öflugu sambýli við sveppi, annað jarðvegslíf og hugsanlega niturbindandi bakteríur á nálum. Það er ótvíræður kostur í landgræðslu og skógrækt að geta ræktað slíka trjátegund við kröpp kjör og án stöðugs ílags dýrra, innfluttra áburðarefna eða annarrar fyrirhafnar í ræktun. Hún auðgar rýrt land, dregur úr losun kolefnis úr rofnu landi og býr í haginn fyrir næstu kynslóðir trjáa.  Stafafuran gefur jafnframt verðmæti í formi jólatrjáa, iðnviðar, eldiviðar, borðviðar og kolefnisbindingar.

 

Á Suður- og Vesturlandi er stafafura eina nytjatrjátegundin sem vex bærilega á skjóllausum og næringarsnauðum söndum, melum, mosaþembu og öðrum gróðursnauðum, gjaldþrota vistkerfum sem algeng eru á Íslandi. Um allt land er hún sú tegund sem helst er hægt að rækta á flatlendi þar sem næturfrosthætta er mikil á vaxtartíma.

Stafafura virðist ein besta og nytsamasta landgræðsluplanta sem völ er á fyrir sunnlensk, sandorpin hraun. Fáeinum árum eftir gróðursetningu er hægt að safna sveppum. Tíu árum eftir gróðursetningu (eða beina sáningu) er hægt að höggva jólatré. Tuttugu árum eftir gróðursetningu er hægt að afla trjáviðar úr grisjunum og nýta í eldivið. Um líkt leyti er furan tekin að sá sér út um nágrennið. Við fimmtíu ára aldur er hægt að rjóðurfella furuskóginn og selja afurðina í borðvið eða iðnvið. Sprettur þá upp nýr skógur án gróðursetningar, með sjálfsáningu. Myndin er tekin á Hafnarsandi, vestan Þorlákshafnar sumarið 2016. Þá voru liðin sjö ár frá gróðursetningu, á örfoka, sandorpnu hrauni.

Mynd frá haustinu 2022, tekin á sama stað og af sömu stafafurum. Rjúpan virðist hafa helgað sér þetta óðal og kunna vel við sig í hinu nýja skóglendi. Áður var lítið um fuglalíf á þessum sandi.

Gróðursetning ungra, smárra stafafuruplantna er ódýr, auðveld og skilvirk aðferð við ræktun hennar. Einnig er hefur góður árangur náðst með enn ódýrari leið: að sá stafafurufræi beint í lítt gróna útjörð. Eftir að stafafuran hefur auðgað jarðveginn og búið til skjól, má gróðursetja ýmsar trjátegundir sem gera meiri kröfur til jarðvegsgæða og annars atlætis, svo sem sitkagreni, degli eða lífvið. Stafafura er því — og verður um ókomin ár — afar mikilvæg tegund í skógrækt á Íslandi; grundvöllur jólatráaframleiðslu, landbóta, aðgerða í loftslagsmálum og timburnytja.

 

Hérlendis hafa verið reynd kvæmi víðast hvar af útbreiðslusvæði stafafuru í Norður-Ameríku í vönduðum samanburðartilraunum. Mörg kvæmi hafa einnig ratað hingað í ræktun með „happa-og-glappa“ aðferðinni við kvæmaprófanir. Kvæmin hafa reynst misjafnlega. Frá því um 1960 hefur kvæmið Skagway í Alaska og „íslensk“ kvæmi af Skagway-uppruna verið ráðandi um mestallt land. Það kvæmi er frá ströndinni í nyrsta hluta útbreiðslusvæðis tegundarinnar við botn fjarðarins Lynn Canal í Alaska. Kvæmið þykir betur aðlagað veðráttunni sunnan- og vestanlands en flest önnur og gefa fallegri jólatré. Bestu innanlandskvæmin, svo sem Tutshi Lake eða Bennet Lake, hafa aftur á móti fíngerðari greinar, eru gjarnan beinvaxnari og því vænlegri sem timburtré. Þau eru helst gróðursett í innsveitum. Breytileiki meðal einstaklinga er samt umtalsverður í þessum efnum innan Skagwaykvæmisins sem og annarra kvæma.

Jólatré, höggvin og sótt af starfsmönnum Skógræktarfélags Íslands í Steinadal í Suðursveit. Öll eru þau af sjálfsáðum furum á aurunum, sem sést á mynd úr steinadal hér að neðan.

Eldiviðarstabbi (4 m3) – allt stafafuruviður úr fyrstu grisjun.

Stafafura af óþekktu innlandskvæmi (P. contorta var. latifolia) við Hjallabraut í Heiðmörk. Líklega gróðursett um líkt leyti og strandfuran af kvæminu Sitka sem sjá má neðst á síðunni. Myndin er tekin seint haustið 2022 og þarna sést annar og ljósari litur á barrnálum en sést á strandkvæmum stafafuru, s.s. Skagway.

Stafafura, af kvæminu Skagway, í Steinadal í Suðursveit. Trén af þessu kvæmi geta verið æði misjöfn að gæðum og beinleika, en sum eru framúrskarandi. Þetta er eitt beinasta og fíngreinóttasta sem við Þröstur Eysteinsson og Pétur Halldórsson (á myndinni) höfum séð.

Ýmis vandamál geta vissulega komið upp í ræktun stafafuru. Stafafurur eru viðkvæmari fyrir snjóbroti en t.d. greni- eða þintegundir, einkum þegar blotasnjór sest í barrmiklar greinarnar og íþyngir þeim. Í kjölfar saltroks á haustin eða veturna geta nálar roðnað og koma þær nálaskemmdir ekki í ljós fyrr en líður á vorið. Þá þorna nálarnar upp vegna saltákomunnar og roðna. Trén geta litið mjög illa út en flest ná sér yfirleitt aftur á strik ef brum eru óskemmd.

 

Nokkuð er talað þessi misserin um ógnir af sjálfsáningu stafafuru á Íslandi. Vissulega eru dæmi þess að stafafura hafi sáð sér út í nágrenni við mæður sínar, á beitarfriðuðu landi þar sem gróður er lítill. Rannsóknir eru gerðar á dreifingu stafafuru og eru nú orðnar fastur liður í reglulegum vísindalegum úttektum á skóglendi landsins. Stafafura fellur ekki undir skilgreiningu íslenskra laga á ágengum framandi tegundum og ekkert sem bendir til þess að útbreiðslan sé eða verði óviðráðanleg, né að furan ógni líffjölbreytni eða öðrum verðmætum.

 

Aðalsteinn Sigurgeirsson og Pétur Halldórsson.

Skógræktarreiturinn í Steinadal í Suðursveit. Fyrir sunnan hann (t.h.) sést stórt svæði þar sem stafafuran hefur sáð sér út á aurunum.

Sjálfsáð stafafura á aurunum á bökkum Steinavatna, í Steinadal í Suðursveit.

Stafafura af strandkvæminu Sitka, bæ sem liggur við opið úthaf í S-Alaska. Kvæmi af stranddeilitegundinni eru jafnan mun meiri runnar en tré. Sum tré af þessum kvæmum minna meir á hvítkálshöfuð en tré. Þessi tré vaxa við Hjallabraut í Heiðmörk og voru gróðursett árið 1965.

Samanburðartilraun með stafafuru að Hólum í Hjaltadal. Trén sem sjást á myndinni eru ættuð hátt úr Klettafjöllum Bandaríkjanna og Kanada.

Skógræktarreitur Skógræktarfélags Austur-Skaftfellinga í Steinadal í Suðursveit. Þar var stafafura gróðursett ásamt öðrum trjátegundum um 1960.