Reynitegundir (Sorbus) hafa átt vaxandi vinsældum að fagna í ræktun hérlendis. Reynitegundir eru yfirleitt harðgerðar. Margar þeirra þrífast hér vel og þroska fræ þrátt fyrir að vera ættaðar frá framandi heimshlutum. Ættkvíslin í heild telst til fegurstu trjáa og runna. Hún tilheyrir rósaætt (Rosaceae) en til hennar teljast a.m.k. 80 -120 tegundir. Flokkun ættkvíslarinnar er erfið viðfangs en reynir fjölgar sér ýmist með kynæxlun eða geldæxlun. Reynitegundir sem mynda fræ með geldæxlun eru mjög einsleitar af fræi ólíkt þeim sem mynda fræ að undangenginni kynæxlun.
Reynitegundir vaxa í tempraða beltinu í Evrópu, Asíu og N-Ameríku. Reynir er lauffellandi tré eða runni, blómin eru 5-deild, oftast hvít, sjaldnar bleik, smá og standa þétt saman í skúf eða hálfsveip. Aldinið, sem er steinaldin, er daglega kallað ber og er í flestum tilfellum rautt eða rauðgult en getur einning verið hvítt, gult eða bleikt. Haustlitir eru oftast áberandi sterkir og fjölbreyttir og er mikið skraut af þeim þegar þeir skarta sínu fegursta.
Reynitegundum er yfirleitt fjölgað með fræjum en einnig með ágræðslu, vefjaræktun og sumargræðlingum. Aldinið er safnað af trjánum í lok ágúst og fram eftir hausti. Í köldum og votviðrasömum sumrum má fastlega gera ráð fyrir lélegum fræþroska.
Hér á landi eru í ræktun tugir reynitegunda sem hafa dafnað með ágætum. Margar þessara tegunda hafa þegar ratað inn í skóga okkar og fegra ásýnd þeirra. Ilmreynir (Sorbus aucuparia) er eina reynitegundin sem hefur vaxið villt hér á landi í gegnum aldirnar og þá einkum sem stök tré í birkiskógunum. Tegund septembermánaðar, skrautreynir (Sorbus decora) er lauffallandi tré oft um og yfir 10 metra hár en getur orðið yfir 20 metrar í heimkynnum sínum í norðaustanverðri Norður-Ameríku.
Blómin eru rjómahvít og sitja mörg saman í hálfsveip og er hvert einstakt blóm um 6 mm í þvermál. Skrautreynir blómstrar um og eftir miðjan júní. Árssprotar eru stinnir og kröftugir. Brumin löng, keilulaga, dökk og límug. Laufblöðin eru stór, aflöng, lensulaga og tennt um 20-32 cm á lengd. Smáblaðpörin eru 5-8. Haustlitir eru gul-appelsínugulir til rauðfjólubláir. Skrautreynir fjölgar sér með geldæxlun og kemur því einsleitur upp af fræi. Fuglar sækja mikið í berin sem hverfa fljótt eftir að þroska er náð.
Tegundin virðist vera salt- og vindþolnari en ilmreynir og hentar því betur t.d. í götuumhverfi og við sjávarsíðuna. Skrautreynir unir sér best í frjóum og vel framræstum jarðvegi. Nokkur yrki hafa verið ræktuð hérlendis.
Í Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar hafa þrjú yrki lengst af verið í ræktun, þ.e. Glæsir, Dímon og Skrúður. Tvö þessara yrkja, Glæsir og Dímon, eru með keilulaga krónu og hafa náð yfir 8 metra hæð. Þau henta ágætlega sem minni götutré ef regluleg klipping og stýring er viðhöfð uppvaxtarárin. Glæsir kom til landsins frá Hesse garðyrkjustöðinni í Þýskalandi árið 1965 og stendur móðurplantan í Grasagarði Reykjavíkur. Dímon var fjölgað með vefjaræktun 1998 af tré sem stóð í Hafnarfirði. Haustlitir eru gul-appelsínugulir og aldinin frekar smá og dökkrauð þegar þroska er náð. Ekki er vitað hvaðan tréð kom upphaflega. Uppruni Skrúðs er óþekktur en móðurplantan er í skrúðgarðinum í Laugardal í Reykjavík. Skrúður er bolstuttur með breiða hvelfda krónu ólíkt hinum yrkjunum. Mynd af honum í almenningsgarði er hér efst á síðunni. Haustlitirnir eru rauðfjólubláir.
Þessi stæðilegu yrki hafa á undanförnum árum verið gróðursett víða í borgarlandinu. Þau hafa mikið aðdráttarafl og setja sterkan svip á umhverfi sitt. Skógarnir sem meðal annars eru vettvangur til afþreyingar, afslöppunar og hreyfingar verða hlýlegri og auka á upplifun þeirra sem þar dvelja.
Þessi þrjú yrki, Glæsir, Dímon og Skrúður, ásamt öðrum reyniviðartegundum, munu til framtíðar laða að fólk og dýr og eru því verðugir fulltrúar trjáa í skógum og trjáreitum í borgarlandinu.
Auður Jónsdóttir, garðyrkjufræðingur og yfirverkstjóri Ræktunarstöðvar Reykjavíkur.