Fréttir

Skólabörn gróðursetja í Úlfarsfelli

Börn í 5. bekk Selásskóla og Norðlingaskóla gróðursettu hátt í 1000 birkiplöntur í Loftlagsskógum Reykjavíkurborgar í Úlfarsfelli þann 16. maí. Viðburðurinn var tilraunadagur vegna samstarfsverkefnis Skógræktarfélags Reykjavíkur og Miðstöðvar útilífs og útináms (MÚÚ) þar sem stefnt er að því að öll börn í Reykjavík gróðursetji einu sinni á skólagöngu sinni. Tekið var á móti tveimur 50 barna hópum og heppnaðist dagurinn með eindæmum vel, veður var gott, börnin áhugasöm og ekki spilti fyrir að að lokinni gróðursetningu var boðið upp á kakó og snúða að hætti MÚÚ. Ef fjármögnun fæst hefst verkefnið af fullum krafti í haust.

Hlutverk Skógræktarfélagsins er að útbúa fræðsluefni sem sent er til kennara fyrirfram, skipuleggja gróðursetninguna, útvega áhöld og plöntur ásamt því að taka á móti börnunum og veita þeim fræðslu og leiðsögn um gróðursetningar. Starfsmaður félagsins tekur á móti börnunum í rútunni og segir þeim þar frá helstu þáttum. Þegar úr rútunni er komið er 50 barna hópi skipt í tvennt og starfsmenn Skógræktarfélagsins veita hvorum hóp um sig verklega kennslu áður en haldið er af stað út í mörkina. Fyrirfram voru kennarar búnir að skipta krökkunum í þriggja manna hópa, sem síðan fengu bakka með birkiplöntum, plöntustaf og fötu með moltu. MÚÚ sér um bókun og samskipti við skólahópa auk þess að sjá um þann ómsissandi þátt að bjóða upp á hressingu en í því felst að kveikja eld í bálpönnum, hita kakó, setja upp tjald og bekki. Tilraunadagurinn nýtist vel til að skipuleggja það stóra verkefni að öll skólabörn í Reykjavík gróðursetji tré í Loftlagsskógum borgarinnar á skólagöngu sinni.

Börnin fengu leiðbeiningar um gróðursetningu áður en haldið var í mörkina.

Gústaf Jarl sýnir börnunum réttu handtökin við gróðursetningu.

Börnin unnu í þriggja manna hópum og voru áhugasöm um verkið.

MÚÚ sló upp tjaldi, borðum og bekkjum og hitaði vatn í kakó yfir opnum eldi í bálpönnum.