Skógarfróðleikur

Skógarnytjar. Kennsla um viðarvinnslu, umhverfi og loftslagsmál

Skógar eru ört vaxandi auðlind á Íslandi. Á næstu árum og áratugum mun viðarmagn í íslenskum skógum aukast, og líklegt að sögunarmyllum fjölgi og meira framboð verði af fullunnu íslensku timbri. Skógræktarfélag Reykjavíkur leitast við að leggja sitt af mörkum til að auka þekkingu á þessari auðlind og styðja við að hún verði nýtt á sem bestan og umhverfisvænastan hátt.

Undanfarin ár hafa tugir trésmíðanema komið í vettvangsnám í Heiðmörk undir merkum Skógarnytja. Það er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur og Tækniskólans sem hófst vorið 2021. Þessir trésmiðir framtíðarinnar hafa fengið fræðslu um skógrækt, skógarhögg og vinnslu timbursins auk fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál, þróun skógarnytja á Íslandi, viðargæði, öryggismál og fleira.

Nemendur frá öðrum skólum, svo sem Listaháskóla Íslands, hafa einnig komið í vettvangsnám í Heiðmörk. Auk þess tekur félagið reglulega á móti hópum grunnskólanema, áhugafólks og fagfólks.

Á síðasta ári fékk félagið styrk frá Þróunarsjóði námsgagna til að útbúa námsgögn fyrir verkefnið Skógarnytjar. Meðal kennslugagnanna er myndbandið Skógarnytjar. Skógrækt, umhverfi og loftslagsmál sem birtist hér. Til að skógrækt og nýting skóga séu sjálfbær, þarf að huga að ýmsu. Ef vel er að öllu staðið, geta vaxandi skógar gert margskonar gagn. Skógar binda kolefni, bæta vatnsmiðlun, skapa skjól og hamla uppblæstri, svo fátt eitt sé nefnt. Og timbur er í langflestum tilvikum miklu betri kostur fyrir umhverfið en til dæmis steypa eða plast. Engu að síður er mikilvægt að huga að ýmsum umhverfisþáttum í tengslum við viðarvinnsluna, eins og að skógarnir séu nýttir á sjálfbæran hátt. Ef skógarhögg er stundað með rányrkju, getur það valdið miklum og fjölþættum skaða.

Á Íslandi eru gríðarleg tækifæri til aukinnar skógræktar. Auk jákvæðar umhverfisáhrifa skóga, gætu orðið til mikil verðmæti. Nokkur dæmi um hvernig timbur úr Heiðmörk hefur verið nýtt, má finna hér.

Gríðarleg þróun og nýsköpun er að eiga sér stað um allan heim í því hvernig nýta má timbur í allt frá lífrænu eldsneyti til húsgagna og jafnvel háhýsa. Þá voru nýlega sagðar fréttir af byggingu 120 herbergja hótels á Reynivöllum, úr timbri. Auk þess að vera mun umhverfisvænna en til dæmis steypa, þá er gert ráð fyrir að byggingartími verði um hálfu ári styttri en ella. Timbrið í hótelið er flutt sjóleiðina til Íslands. Enda eru aðrar þjóðir með bæði stærri skóga og þróaðri timburiðnað.

Mikið timbur er flutt til Íslands. Allt frá ódýrum grisjunarvið til fullunninna innréttinga. Flutningarnir eru hins vegar orkufrekir. Um 50 þúsund tonn af koltvísýringi eru losuð við innflutning viðarafurða, á hverju ári. Aukin timburframleiðsla með vaxandi skógum og þróaðri viðarvinnslu, er því hagstæð á fjölmargan hátt.