Fréttir

Skógarganga um Vífilsstaðahlíð fimmtudaginn 19. ágúst

Þriðja skógarganga sumarsins í samstarfi við Ferðafélag Íslands verður um Vífilsstaðahluta Heiðmerkur, fimmtudaginn 19. ágúst. Með í för að þessu sinni verður Ásta Kristín Davíðsdóttir, landvörður á Suðvesturlandi og starfsmaður Umhverfisstofnunnar. Ásta Kristín mun fjalla um náttúru svæðisins ásamt farastjórum, sem eru Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur og Páll Guðmundsson framkvæmdarstjóri Ferðafélags Íslands. Gengið verður frá stóra bílastæðinu við vesturenda Vífilsstaðavatns klukkan 18:00.

 

Ferðafélag Íslands og Skógræktarfélag Reykjavíkur tók höndum saman í sumar og skipulögðu fjórar skógargöngur. Gangan á fimmtudag verður sú þriðja í sumar. Sú fjórða og síðasta verður fimmtudaginn 16. september verður afmælisgangan um Rauðavatnsstöðina, með leiðsögn Jóns Geirs Péturssonar. Tilefnið er að í haust verða 120 ár liðin frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur var fyrst stofnað, til að kaupa landskika við Rauðavatn og rækta þar skóg.

 

Skógargöngur Skógræktarfélags Reykjavíkur og Ferðafélags Íslands eru í léttara lagi, tveggja til þriggja klukkutíma langar. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

 

Myndin hér að ofan er líklega tekin í Vífilsstaðahlíð, um 1965-67. Stafafuran á myndinni var gróðursett árið 1958. Kort af Heiðmörk má nálgast hér.