Fréttir

Skógarganga og gróðursetningar á Degi íslenskrar náttúru

Fjórða skógarganga sumarsins verður fimmtudaginn 16. september. Gengið verður um Rauðavatnsstöðina, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað um að rækta upp, fyrir 120 árum.

Sérstakur gestur í skógargöngunni verður Jón Geir Pétursson, dósent í umhverfis-og auðlindafræði, sem er sérfróður um Rauðavatnsstöðina. Fararstjórar eru sem áður Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, og Páll Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Ferðafélags Íslands. Gengið verður frá fyrsta hringtorgi þegar komið er til Reykjavíkur, á móts við Norðlingaholt, klukkan 18:00.

Skógargöngur sumarsins 2021 eru samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Skógargöngurnar eru í léttara lagi, um tveggja klukkutíma langar. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Danski skógfræðingurinn C. E. Flensborg í Rauðavatnsstöðinni, 1905.

Rauðavatnsstöðin er fyrsta skipulagða skógrækt á höfuðborgarsvæðinu. Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað árið 1901 til að kaupa mætti land þar og rækta upp, svo til yrði fagurt skóglendi og útivistarsvæði í nágrenni borgarinnar. Á ýmsu gekk við skógræktina en í dag er þarna myndarlegt skóglendi. Í skógargöngunni verður farið um svæðið, fjallað um tegundir og leifar frá gróðrarstöð sem starfrækt var við Rauðavatn á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Þá verður sérstaklega fjallað um hegg sem er rótarskot af hegg sem var gróðursettur á upphafsárum Rauðavatnsstöðvarinnar. Heggurinn er einn sá elsti á landinu og er ættfaðir fjölmargra trjáa á Suðvesturhorninu. Þessi heggur var tilnefndur tré ársins af Skógræktarfélag Íslands fyrr í sumar.

Margt fleira er um að vera 16. september, sem er Dagur íslenskrar náttúru. Nokkrir skólar taka þátt í Degi Íslenskar náttúru með því að gróðursetja víðsvegar um Heiðmörk. Einnig skrifar formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur undir undir Bonn-áskorunina sem er alþjóðleg viljayfirlýsing um að græða upp illa farið land og endurheimta skóglendi.

Heggur í Rauðavatnsstöðinni var útnefndur Tré ársins 2021 af Skógræktarfélagi Íslands, við hátíðlega athöfn. Mynd: Gústaf Jarl Viðarsson.