Fréttir

Skipulagningu Græna stígsins miðar áfram

Áform um Græna stíginn eru smám saman að skýrast. Stígurinn verður um 50 kílómetra útivistarstígur sem nær allt frá Hafnarfirði til Esjunnar. Skýrsla um stíginn — drög að frumgreiningu — hefur nú verið birt.

Græni stígurinn verður samfelldur göngu- og hjólastígur, sem liggur eftir endilöngum Græna treflinum og lengra, bæði til norðurs og suðurs. Græni trefillinn er samfellt útivistarsvæði við efri jaðar borgarbyggðarinnar. Honum er lýst svona í frumgreiningunni, sem unnin voru fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu:

„Trefillinn teygir sig frá Esjuhlíðum í norðri til Helgafells í suðri og tengist þannig fjalllendi Esjunnar, Bláfjallafólkvangi og jarðvangi Reykjanesfólkvangs. Græni trefillinn fléttar saman skógarteiga, hraun, vötn og fell. Áhersla er lögð á verndun sérstæðs landslags og lífríkis. Þar er aðstaða til fjölbreyttrar útivistar svo sem athafnasvæði hestamanna og golfvellir sem og fjölbreytt náttúra, hraunbreiður og votlendi, ræktaður skógur og náttúrulegt kjarr. Í treflinum skal skógrækt stunduð í sátt við sérkenni landslags og náttúrufars, til skjóls og yndisauka, til bættra útivistarskilyrða, til að hefta ösku- og jarðvegsfok og bindingar kolefnis og svifryks frá umferð.“

Drögin hafa verið kynnt kjörnum fulltrúum í sveitarfélögunum sem að verkefninu koma. Hægt er að skoða drögin hér.