Sitkagreni er stórvaxnasta grenitegundin hér á landi og eitt mikilvægasta skógartré landsins. Hæsta tré á Íslandi er sitkagreni sem vex við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri. Tréð var gróðursett árið 1949 og hefur að öllum líkindum náð 30 metra hæð sumarið 2022.
Sitkagreni er einstofna með breiða keilulaga krónu. Trén eiga það til að vera stór og gróf en eru gjarnan með skástæðar greinar sem vaxa upp á við, sérstaklega í efri hluta krónu. Barrið er bláleitt en nálar eru stinnar og stinga. Þær eru ávalar að ofan og gljáandi dökkgrænar en bláhvítar að neðan. Könglar eru ílangir og eru í fyrstu grænrauðir en verða ljósbrúnir og um 6-10 sentimetra langir.
Tegundin er upprunin á Kyrrahafsströnd Norður-Ameríku. Náttúrulegt útbreiðslusvæði hennar nær allt frá Kaliforníu í suðri til Alaska í norðri. Trén vaxa við ströndina allt niður að sjávarmáli en fara ekki langt inn í land. Sitkagreni getur náð háum aldri, allt að 6-700 ára. Algengt er að að þau verði 25-50 metrar að hæð í skógum. Tegundin ætti að geta ná a.m.k. 40 metra hæð hér á landi.
Sitkgreni er harðgert og tiltölulega fljótsprottið auk þess sem það er gætt ýmsum góðum eiginleikum eins og að vera saltþolið, vindþolið og skuggþolið. Eins og flest annað greni þarf sitkagreni frjósaman og rakaheldinn jarðveg til að þrífast vel, þar sem greni vex yfirleitt best í frjórri mold og góðu skjóli. Rýrt mólendi hentar ekkert sérstaklega vel til ræktunar á sitkagreni en það getur hins vegar vaxið vel á rýru landi s.s. grýttu eða lítt grónu. Sérstaklega ef það er með hjálparplöntur með sér, eins og t.d. lúpínu, lerki eða furu.
Oft líða 15-20 ár áður en einstaka sitkagreni fara að vaxa af krafti. Eftir það geta trén vaxið kröftuglega, kannski 70 ára aldurs eða lengur. Séu rétt kvæmi notuð og gróðursett á hagstæða staði, geta verið standandi nokkur hundruð kúbikmetrar á hektara í 60 ára gömlum skógi.
Sitkagreni ber reglulega fræ á Íslandi og sáir sér í rofin svæði. Fræ til ræktunar á tegundinni er fengið af trjám sem vaxa hér á landi. Aðlögun og kynbætur munu vafalaust auka enn vegsemd sitkgrenis.
Tegundin dregur nafn sitt af bænum Sitka í sunnanverðu Alaska en hefur verið ræktuð á Bretlandseyjum frá 1831 og víðar í Evrópu eftir það. Fyrstu sitkagreniplönturnar komu til Íslands frá Danmörku á þriðja áratug tuttugustu aldar. Þær áttu ættir að rekja til Vankúver, syðst í Kanada og þrifust flestar illa svona norðarlega á hnettinum. Um 100 plöntum sem komu frá Noregi 1937, vegnaði ekki mikið betur. Betra fræ fékkst frá Alaska um og eftir 1940, einkum eftir að Hákon Bjarnason skógræktarstjóri fór í fræsöfnunarferðir til Alaska eftir síðari heimsstyrjöld.
Verðmætur viður og kærkomið skjól
Sitkagreni gefur af sér verðmætar afurðir. Viðurinn er sterkur, léttur og endingargóður, með mikið sveigjuþol. Vegna örs vaxtar, sem helst nokkuð stöðugur yfir langan tíma, geta trén skilað gríðarmikilli uppskeru og bundið mikið kolefni yfir langan tíma. Erlendis er viður af sitkagreni unninn í borðvið, notaður sem hráefni til pappírsframleiðslu og í beðmi og sellulósa. Viður af sitkagreni hefur verið vottaður til notkunar í byggingariðnaði í Noregi, Danmörku og Skotlandi. Norðmenn hafa til að mynda notað sitkagreni við viðhald og endurbyggingu húsa og við byggingu húsa og báta. Hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur er viður af sitkagrenitrjám gjarnan notaður í borðvið og í kurl auk þess sem bæði Oslóartréð og Þórshafnartréð eru alla jafna sitkagrenitré. Á seinasta ári náðist merkur áfangi í þróun og nýtingu viðarafurða á Íslandi, þegar íslenskt sitkagreni hlaut vottun til að framleiða megi úr því viðurkennt límtré í mannvirki.
Tegundin hefur þjónað umhverfi byggðar sérstaklega vel vegna vind-, salt- og frostþols. Þau hafa lagt sitt á vogarskálarnar við að ná niður vindi í byggð og skýla hverfum fyrir veðri vindum og margskonar mengun. Í Reykjavík má til að mynda nefna skjólbelti sitkagrenitrjáa við Miklubraut, bæði meðfram Klambratúni og milli þessarar miklu umferðargötu og íbúðarhúsa, allt frá Lönguhlíð að Kringlumýrarbraut. Í raun veita trén byggðinni í kringum sig mikila og verðmæta þjónustu, þar sem sitkagreni í þéttbýli dregur úr vindi, hreinsar svifryk og minnkar mengun.
Erfitt er fyrir tré að vaxa upp í borgarumhverfi þar sem það er ekki í skógi og þarf gjarnan að þola mikla umferð og ákomu. Ýmsir þættir geta verið valdið veikleikum í trénu, stressi eða öðrum áföllum sem hafa áhrif á heilsu þess og viðnámsþrótt. Þá getur sitkalús farið illa með tré ef slíkur faraldur kemur upp eftir hlýjan vetur og trén verða fyrir áfalli. Yfirleitt drepast þau þó ekki. Sitkagreni hentar yfirleitt ekkert sérstaklega vel í litla garða, nema hún sé klippt á hverju ári. En þar sem stór grenitré standa inni í hverfum, leggja þau mikið til í borgarskóginum við að draga úr vindhraða og miðla úrkomu í umhverfi sínu.
Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur og stafsmaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.