Það hefur verið bæði gestkvæmt og góðmennt á Jólamarkaðnum í Heiðmörk og í Jólaskóginum á Hólmsheiði síðustu helgar. Opið verður næstu helgi, þá síðustu fyrir jól.
Á fimmtudag opnar svo jólatrjáasala á Lækjartorgi, sem er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar. Boðið verður upp á notalega stemmning í gróðurhúsinu sem nú er staðsett á Lækjartorgi og hægt að kaupa jólatré, tröpputré og greinabúnt. Jólatrjáasalan verður opin út Þorláksmessu. Á virkum dögum verður opið frá 16.00 til 20.00 og helgina 19.- 20. des frá 14.00 til 18.00.
Menningin á RÚV leit við á jólamarkaðnum í Heiðmörk nýverið til að skoða Jólamarkaðstréð, sem í ár er skreytt af Hönnu Dís Whitehead. Skógræktarfélagið fær á hverju ári listamann eða hönnuð til að skreyta tréð og er það mikill heiður að fá jafn frábæra listamenn og Hönnu til samstarfs. Í Menningunni í gær var fjallað um leirmuni sem Hanna gerir, um skrautið sem hún bjó til fyrir Jólamarkaðstréð og sýndar skemmtilegar myndir úr Heiðmörk.
Skrautið á Jólamarkaðstrénu er unnið úr afgangsefnivið af vinnustofunni, svo sem bómull, ull, melgresi og viðarafgöngum. Hanna segist vona að skrautið gleðji. „Ég var mikið að hugsa um að krakkar og aðrir myndu kannski sjá bara grímuklætt fólk, þannig að ég reyndi að búa til einhver brosandi andlit sem þau geti séð inni í trénu.“
Jólamarkaðurinn í Heiðmörk verður opinn helgina 19. -20. desember frá 12:00 til 17:00.
Í Jólaskóginum á Hólmsheiði verður áfram hægt að höggva eigið jólatré helgina 19. – 20. desember, milli klukkan 11 og 16.