Á döfinni, Fréttir

Shinrin-yoku. Fyrsta skógarbað vetrarins

Fyrsta skógarbað vetrarins í Heiðmörk, laugardaginn 26. október, klukkan 11-13.

Skógarböð  í Heiðmörk síðasta vetur vöktu mikla lukku. Við erum því bæði glöð og stolt af því að áfram verður boðið upp á mánaðarlegt Skógarbað í Heiðmörk, að minnsta kosti fram að áramótum. Að baðinu stendur Nature and Forest Therapy Iceland, í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur.
Skógarbað (shinrin-yoku), varð til í Japan 1982 sem leið til að draga úr streitu, tíðum lífsstílssjúkdómum og versnandi lýðheilsu.

Hvernig er skógarbaðið?
Skógarbað í Heiðmörk er tveggja klukkustunda leidd slökun í Heiðmerkurskógi og við jaðar Elliðavatns. Gengin er stutt vegalengd (að hámarki 1 km) og á leiðinni er þátttakendum boðið í upplifun sem getur auðveldað þeim að slaka á, beita skynfærunum og eflt tengsl sín við náttúru og sig sjálf. Einnig gefst tækifæri til að sitja í þögn og að deila upplifun sinni með öðrum. Við lok göngu eru góðar líkur á að þátttakendur upplifi meiri ró og yfirvegun og séu í meiri tengslum við náttúruna í kringum sig.

Skráning
Öll sem náð hafa 15 ára aldri eru velkomin. Viðburðurinn er ókeypis. Þess er farið á leit að þátttakendur svari stuttum spurningalista fyrir og eftir gönguna. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku í viðburðinum á Facebook, með því að smella á „Mæti“.

Vegna eðli viðburðarins er þátttaka takmörkuð við 10 manns. Sjái fólk fram á að komast ekki, óskum við eftir að það afskrái sig. Ef veður er mjög vont, getur komið til þess að viðburði verði aflýst. Við látum þá vita hér á síðunni.

Hvar og hvenær?
Við hittumst við Elliðavatnsbæinn. Ef komið er frá Reykjavík, er ekið yfir brúna við Helluvatn, til hægri eftir fyrsta afleggjara, og svo aftur til hægri meðfram vatninu, þar til komið er að Elliðavatnsbænum.
Staðsetningin á Google Maps.

Gangan hefst stundvíslega klukkan 11, laugardaginn 26. október. Þátttakendur eru beðnir um að mæta eigi síðar en kl. 10:50. Ekki verður hægt að slást í hópinn eftir að gangan hefst.

Hvað á að hafa með sér?
Mikilvægt er að mæta á staðinn vel nærð og útbúin fyrir 2 tíma hæglætis útivist og kyrrsetu. Þátttakendur fá vatnsheldar sessur til afnota. Mælt er með að fólk klæðist hlýjum, þægilegum og vatnsheldum fötum og grófum skóm. Gott að taka með sér teppi, vatn eða jafnvel eitthvað heitt að drekka á hitabrúsa.