Fréttir

Samnorræn jólastund í Heiðmörk

Laugardagur, 25. nóvember 2017

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri felldi Oslóartréð  á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk í morgun.

Um er að ræða 12,5 metra hátt sitkagrenitré  og þegar búið var að telja árhringina kom í ljós að það er um það bil 48 ára gamalt. Tréð verður sett upp á Austurvelli og jólaljósin tendruð á trénu þann 3. desember nk. Oslóarborg hefur aðkomu að viðburðinum.

Borgarstjóri klæddist viðeigandi öryggisbúnaði og fékk verkfæri til verksins og naut liðsinnis starfsmanna Skógræktarfélags Reykjavíkur. Fulltrúar allra borganna voru viðstaddir fellinguna í Heiðmörk í morgun. Kveikt var á varðeldi og boðið upp á ketilkaffi, kakó og vatn, flatbrauð og grillaðar pylsur.

Reykjavíkurborg færir Þórshafnarbúum tré að gjöf. Tréð var fellt fyrr í mánuðinum og er komið í skip. Það kemur til með að prýða Tinghúsvöllinn  í miðborg Þórshafnar. Líf Magneudóttir forseti borgarstjórnar mun tendra tréð í Þórshöfn laugardaginn 2. desember nk.

Reykjavíkurborg færir einnig íbúum Nuuk, höfuðborgar Grænlands, jólatré að gjöf.  S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs afhendir tréð  í Nuuk þann 3. desember nk. við hátíðlega athöfn.

Eimskip sem hefur í gegnum árin flutt Oslóartréð til Íslands mun sjá um flutning á trjánum til Grænlands og Færeyja.

Klukkan 12.00 opnaði svo Jólamarkaður Skógræktarfélags Reykjavíkur þar sem boðið verður upp sjálfbær og vistvæn jólatré og náttúrulegar vörur á markaðnum fyrir hátíðarnar um helgar frá 25.nóv – 17.desember

img_7781img_7812img_7800img_7785