Fréttir

Samantekt aðalfundar 2018

Að ofan: Þröstur Ólafsson formaður (mynd: Helgi Gíslason)

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Reykjavíkurborg stefna að auknu samstarfi um skógrækt í borgarlandinu. Unnið skal að gerð heildstæðrar skógræktarstefnu og gerðir verða samningar um einstök verkefni. Þetta kom fram í máli Þrastar Ólafssonar, fráfarandi formanns Skógræktarfélags Reykjavíkur, á aðalfundi félagsins þann 21. mars. Drög að yfirlýsingu um samstarfið liggja fyrir í stofnunum borgarinnar og eru þar tilgreind öll helstu skógræktarsvæði innan borgarmarkanna, svo og svæði sem enn eru ósnortin af skógrækt í jaðri borgarlandsins.

Ársskýrsla Skógræktarfélags Reykjavíkur 2017

Á fundinum var einnig tilkynnt um kaup Skógræktarfélags Reykjavíkur á jörðinni Fellsmörk í Mýrdal en gengið var frá kaupunum sama dag og fundurinn var haldinn en félagið hefur látið í ljósi áhuga á að kaupa hana af ríkinu um margra ára skeið en ekki haft erindi sem erfiði fyrr en nú. Keypt land er samkvæmt samningi 982 hektarar og tekur nú við hugmynda- og skipulagsvinna um hvernig félagið nýtir þetta fallega og fjölbreytta land. Af því tilefni rifjaði Þröstur upp þá hugmynd sína að ef félaginu auðnaðist að eignast landið myndi það gera það að eins konar þjóðgarði sem yrði öllum aðgengilegur.

Þröstur Ólafsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu á fundinum en hann hefur verið í henni í 14 ár, þar af 11 sem formaður. Þetta hefur verið viðburðaríkur tími í sögu Skógræktarfélags Reykjavíkur og kunnu fundarmenn Þresti bestu þakkir fyrir hans framlag til félagsins. Einnig gekk Hjalti Elíasson úr stjórn við þetta tækifæri en í stað þeirra voru Björt Ólafsdóttir og Jóhannes Benediktsson kosin í aðalstjórn. Þá var Hallur Björgvinsson kosin í varastjórn en hann kemur úr hópi landnema í Fellsmörk og því mikill fengur að honum í stjórn í ljósi landakaupa félagsins.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum flutti Sævar Hreiðarsson, skógfræðingur og skógarvörður í Heiðmörk, erindi um eiginleika íslensks trjáviðar, þéttleika og endingu en það byggist á meistaraverkefni hans við Landbúnaðarháskóla Íslands. Rannsókn Sævars leiddi meðal annars í ljós að íslenskur trjáviður stenst samanburð við sömu tegundir í Evrópu og Ameríku. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að íslenskur viður muni uppfylla gæðastaðla og með reynslu og rannsóknum eiga ræktendur að geta aukið gæðin til framtíðar.

Texti: Einar Jónsson